Viðbúnaður vegna vélarvana skips

Þyrla LHG kölluð út eftir að vélar flutningaskips biluðu í mynni Reyðarfjarðar

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á sjöunda tímanum í gærkvöld tilkynning um að flutningaskipið Hoffell væri með bilaða vél í mynni Reyðarfjarðar. Útlit var fyrir óveður á þessum slóðum síðar um kvöldið og því voru allar bjargir kallaðar til. Fjölveiðiskipið Jón Kjartansson hélt að beiðni stjórnstöðvar þegar í stað að Hoffellinu og þá voru sjóbjörgunarsveitir á Reyðarfirði, Eskifirði, Norðfirði og Fáskrúðsfirði ræstar út, auk hafnsögubátsins Vattar á Reyðarfirði. 

Þyrlan TF-LIF var einnig kölluð til og fór hún í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 18.46 og lenti svo á flugvellinum við Höfn í Hornafirði tæpum tveimur tímum síðar þar sem áhöfnin beið átekta. Loks setti varðskipið Þór setti stefnuna austur en skipið var þá statt úti fyrir Vestfjörðum.

Um klukkan hálfátta hafði skipverjum á Hoffellinu tekist að koma vélunum í gang, þó ekki með fullu afli. Skipið gat þar með siglt til Reyðarfjarðar fyrir eigin vélarafli og ljóst að mestu hættunni hafði verið bægt frá. Aðstoð þyrlunnar var afturkölluð um hálfellefuleytið. Í varúðarskyni voru samt Vöttur og Hafdís, björgunarskip Slysavarnafélagins Landsbjargar á Fáskrúðsfirði, beðin um að fylgja skipinu síðasta spölinn og fór hafnsögumaður af Vetti um borð til að tryggja að allt gengi vel fyrir sig. Hoffellið lagði svo að bryggju á Reyðarfirði á tólfta tímanum.