Víðtækt hlutverk stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í tengslum við loðnuveiðarnar

  • _MG_0659

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, sem jafnframt er sameiginleg eftirlitsstöð Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu með tilliti til fiskveiða, hafa í nógu að snúast meðan loðnuveiðar erlendra skipa standa yfir í íslensku efnahagslögsögunni. Sem stendur eru 30 norsk loðnuveiðiskip innan lögsögunnar en einungis 25 þeirra mega vera að veiðum í einu. Norsku loðnuskipin sem fara í höfn á Íslandi til löndunar verða að bíða þar til röðin kemur aftur að þeim að verða eitt af þeim 25 skipum sem hafa heimild til veiðanna. Þessu stýra varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en auk þess fylgjast þeir með því að afla- og athafnaskeyti skipanna og heimildir til löndunar á Íslandi séu í samræmi við milliríkjasamninga fiskveiðiþjóða við Norðaustanvert Atlantshaf. Til viðbótar þurfa erlend fiskiskip að senda komutilkynningar með ákveðnum fyrirvara vegna landamæraeftirlits og hefur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eftirlit með því.

Alls hafa 59 norsk loðnuskip komið til veiða við Ísland á þessari vertíð sem stendur yfir til og með 22. febrúar hvað Norðmenn varðar. Alls hafa norsku skipin veitt 25.379 tonn af 45.000 tonna kvótaheimild. Auk þess hafa Norðmenn aðgang að hluta af kvóta Grænlendinga. Auk norsku skipanna hefur eitt grænlenskt skip verið við veiðarnar og tvö færeysk. Það saxast rólegar á kvóta Grænlendinga og Færeyinga en skip þeirra hafa heimild til að stunda veiðarnar til 30.apríl nk.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eru daglega í miklu sambandi við skipstjóra skipanna, útgerðir þeirra, Fiskveiðieftirlitsstöðina í Noregi og samtök fiskiðnaðarins í Noregi varðandi öflun og miðlun margvíslegra upplýsinga. Leiðrétta þeir rangfærð aflaskeyti ásamt því að koma skipunum í samband við þyrlulækna Landhelgisgæslunnar þegar þörf er á læknisfræðilegum ráðleggingum.

Starfsmenn í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafa fjölbreytta og víðtæka þekkingu og reynslu. Sumir eru með áralanga reynslu af sjómennsku, aðrir mikla reynslu úr sjóbjörgunarsveitum og enn aðrir langa reynslu af starfi sem loftskeytamenn af loftskeytastöðvunum sem starfræktar voru á nokkrum stöðum umhverfis landið á árum áður. Þeir eru því vel í stakk búnir til að vera í samskiptum við sjómenn og veita þeim þá þjónustu sem þörf er á eða leiðbeina þeim hvert leita skuli með tiltekin mál. Auk þess hafa varðstjórarnir verðmæta reynslu á sviði leitar og björgunar og eru því þessum skipum sem öðrum til aðstoðar ef þörf er á. Meðal annars var stjórnstöðin í miklu sambandi við norskt loðnuveiðiskip fyrir örfáum dögum en um borð var hjartveikur sjómaður. Varðstjórar kölluðu þá varðskipið Þór til aðstoðar en stjórnstöðin hefur ávallt heildarsýn yfir hvar löggæslu- og björgunareiningar Landhelgisgæslunnar eru staddar og hvernig best er með tilliti til staðsetninga og eðli máls að leysa verkefnið. 

Meðfylgjandi myndir sýna er sjúkraflutningamenn í áhöfn Þórs fóru um borð til að meta ástand sjúklingsins í norska loðnuskipinu.