Látins félaga minnst með árlegu kaffisamsæti
Það var falleg stund í morgun þegar starfsfólk Landhelgisgæslunnar kom saman á kaffistofunni í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli til að minnast látins félaga, Vilhjálms Óla Valssonar yfirstýrimanns og sigmanns. Vilhjálmur hefði átt 45 ára afmæli á morgun, 14. janúar, en hann lést úr krabbameini fyrir rétt tæpum fjórum árum.
Foreldrar Vilhjálms, þau Valur Einarsson og Dagný Heiða Vilhjálmsdóttir, og fjölskylda hans hafa æ síðan efnt til Villakaffis í tengslum við afmælisdaginn.
Vilhjálmur Óli greindist með krabbamein í vélinda árið 2012. Hann vakti á sínum tíma mikla athygli í tengslum við áheitasöfnunina Mottumars en hann stóð uppi sem sigurvegari einstaklingskeppninnar. Hann lést 30. mars 2013.
Einar Valsson, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, er bróðir Vilhjálms heitins, en hann er hér á myndinni til hægri ásamt foreldrum þeirra Vilhjálms og Berglindi Jónsdóttur, eftirlifandi eiginkonu hans.
Valur Einarsson og Dagný Heiða Vilhjálmsdóttir, foreldrar Vilhjálms Óla, Berglind Jónsdóttir, ekkja hans, auk Sigurðar Heiðars Wiium, yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar. Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók myndirnar.