Yfirmaður flugsveitar safnar fyrir Umhyggju

William Mitchell undirofursti hljóp frá Reykjavík til Keflavíkur í góðgerðarskyni

Frá því um miðjan maí hafa liðsmenn flugsveitar úr kanadíska flughernum haft aðsetur á öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli með sex CF-18 Hornet orrustuþotur. Sveitin sinnir hér stöðugri loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins og getur brugðist við með örskömmum fyrirvara ef fljúga þarf á móti og bera kennsl á óþekkt loftför sem eru annað hvort í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins eða nálgast það.

„Við höfum fengið mjög góðar móttökur hjá Keflvíkingum og liðsmenn okkar hafa notið fádæma gestrisni um allt land,“ segir William Mitchell, undirofursti í kanadíska flughernum og yfirmaður flugsveitarinnar, í fréttatilkynningu. „Við vildum sýna þakklæti okkar í verki með því að gefa samfélaginu eitthvað til baka og því hafa liðsmenn sveitarinnar safnað fé fyrir Umhyggju.“ 

Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins.

Í morgun hljóp Mitchell undirofursti, sem er bæði flugmaður CF-18-orrustuþotu og langhlaupari, 46 kílómetra leið á milli Reykjavíkur og Keflavíkur. „Hlaupið var býsna erfitt en þetta var samt algerlega einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda. Ég er sannfærður um að söfnunarféð renni til einstaklega góðs málefnis en ég er líka vongóður um að þetta framtak verði til að vekja athygli á þeim stuðningi sem Umhyggja getur veitt fjölskyldum sem þurfa á slíku að halda. Það er afar mikilvægt að láta gott af sér leiða og aðstoða þegar maður getur og ég er mjög stoltur af því að hafa fengið tækifæri til þess,“ sagði Mitchell undirofursti, sem lauk hlaupinu á fjórum klukkustundum, þrjátíu mínútum og 33 sekúndum.

Alls söfnuðust áheit að upphæð 154.988 krónur og var söfnunarféð afhent fulltrúum Umhyggju föstudaginn 16. júní. 

RP09-2017-0046-011

Þátttaka kanadísku flugsveitarinnar og orrustuþotnanna í loftrýmisgæsluverkefni Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, er liður í Operation REASSURANCE, sem er framlag Kanada til öryggis- og varnaðaraðgerða bandalagsins. Félagar í sveitinni segjast stoltir af því að vinna með Íslendingum, bandamönnum sínum, að því að tryggja öryggi loftrýmisins.