Íslenska leitar- og björgunarsvæðið
Næstum tuttugufalt flatarmál Íslands
Íslenska leitar- og björgunarsvæðið er 1,9 milljónir ferkílómetrar að flatarmáli. Ísland ber ábyrgð á að hefja og stýra öllum aðgerðum vegna flugatvika og sjóatvika á þessu svæði.
Íslenska leitar- og björgunarsvæðið er 1,9 milljónir ferkílómetrar að flatarmáli, næstum tuttugufalt flatarmál Íslands. Á þessu svæði ber Landhelgisgæslan ábyrgð á því að hefja og stýra öllum aðgerðum við neyðartilvikum; náttúruhamförum, skipsköðum, mengunarslysum eða hvers konar áföllum.
Landhelgisgæslan starfar því á svæði sem nær langt suður fyrir Grænland, austur fyrir Færeyjar og norður fyrir Jan Mayen. Svæðið teygir sig að hluta eða í heild yfir efnahagslögsögu fimm landa.
Þetta eru geysilegar vegalengdir og á aðgerðasvæði Gæslunnar þarf auk þess að eiga við válynd veður, langvarandi myrkur, storma sem ná krafti fellibylja og ísingu.
Það er þó ekki endilega þannig að einingar Landhelgisgæslunnar, hvort heldur skip eða loftför, sjái um allar leitar- og björgunaraðgerðir á þessu svæði heldur sér björgunarstjórnstöðin í Skógarhlíð um að hefja aðgerðir og sjá til þess að viðeigandi viðbúnaður sé settur í gang.