Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar
Hjarta starfsemi LHG er stjórnstöðin
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (Joint Rescue Coordination Centre, JRCC - Ísland) sem er sameiginleg eining MRCC og ARCC. Stjórnstöðin er ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu fyrir sjófarendur og loftför og fyrir samhæfingu framkvæmdar leitar- og björgunaraðgerða innan íslenska leitar- og björgunarsvæðisins.
Stjórnstöðin er samhæfingar- og þjónustuaðili fyrir alla starfsemi Landhelgisgæslunnar en undir hana fellur einnig vaktstöð siglinga. Hún hefur sérstöðu umfram hefðbundnar stjórn- eða vaktstöðvar þar sem mikilvæg samræming allrar starfsemi Landhelgisgæslunnar fer þar fram. Stjórnstöðin sinnir allri neyðarsímsvörun fyrir Landhelgisgæsluna og boðar gæslueiningar og viðbragðsaðila í útköll, samhæfir verkefni þeirra og sér um fjarskipti.
Verkefni stjórnstöðvar LHG eru í meginatriðum fjórþætt: Hún er fjarskiptastöð fyrir varðskip og gæsluloftför, björgunarstjórnstöð og hlekkur í hinu almenna öryggiskerfi landsins, fjareftirlits- og fiskveiðieftirlitsstöð og móttökustöð tilkynninga erlendra skipa vegna siglinga þeirra um lögsöguna, komu þeirra til hafnar á Íslandi vegna Schengen-samkomulagsins og siglingaverndar, sem er eitt af verkefnum Vaktstöðvar siglinga (VSS).
Dæmi um verkefni stjórnstöðvar
- Mótteknar eru upplýsingar frá erlendum fiskiskipum með veiðiheimild í íslenskri efnahagslögsögu.
- Höfð samskipti við hafnaryfirvöld vegna siglinga- og hafnarverndar.
- Lesnar upp skyndilokanir á veiðislóð, sem og veðurspár og veðurspárskeyti til sjófarenda á tilætluðum tímum með fjarskiptabúnaði stöðvarinnar.
- Samskipti við loftrýmis- og öryggismálasvið LHG sem og Isavia vegna flugs NATO flugvéla í lofti innan íslensku efnahagslögsögunnar.
- Fjarskiptaprófanir við fjarskiptamiðstöðvar í nágrannalöndunum.
- Haft samband við erlendar skútur eða skip sem sjást í ferilvöktunarkerfum en hafa ekki tilkynnt um ferðir sínar við Ísland.
- Haft er samband við íslensk skip sem eru með útrunnin haffærisskírteini og þau áminnt um að koma málum í lag.
Beiðnir um hjálp eða aðstoð berast yfirleitt fyrst til stjórnstöðvarinnar sem setur í gang fyrstu aðgerðir eftir eðli máls hverju sinni. Boð berast oft gegnum fjarskiptabúnað stöðvarinnar eða VSS, frá Neyðarlínunni, lögreglu eða öðrum aðilum. Eins og áður segir eru aðgerðir Landhelgisgæslunnar á sjó og í lofti samræmdar frá stjórnstöðinni. Þar er staðin vakt allan sólarhringinn, allt árið um kring af þremur til fjórum varðstjórum hverju sinni.
Hægt er að lesa nánar um mikilvægar upplýsingar um móttöku þyrlu á sjó og landi á vefnum okkar.
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fara með stjórn allra verkefna VSS samkvæmt þjónustusamningi við Siglingastofnun Íslands. Aðrir aðilar að samningnum eru Neyðarlínan (112) og Slysavarnafélagið Landsbjörg. Þann 1. maí 2006 gerðust starfsmenn VSS starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Við hlið Vaktstöðvar siglinga (VSS) voru fyrir vaktstofa Neyðarlínunnar (112), fjarskiptamiðstöð (FML) og samhæfingarstöð almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Þannig eru allar helstu stjórnstöðvar leitar og björgunar á Íslandi í sömu byggingu, sem auðveldar skipulag og samstarf þegar á ríður.
Stjórnstöðin er elsta starfseining Landhelgisgæslunnar á eftir Sjómælingum en hún var stofnuð 14. apríl 1954 að Seljavegi 32 í Reykjavík og starfrækt þar samfellt í rúm 51 ár, eða til 13. maí 2005 þegar Landhelgisgæslan flutti í björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð 14. Þá tók Landhelgisgæslan og stjórnstöð hennar við stjórn og rekstri Vaktstöðvar siglinga (VSS). Til hlutverka VSS teljast m.a. strandastöðvaþjónustan og tilkynningarskylda íslenskra skipa ásamt öðrum verkefnum samkvæmt lögum og reglugerð um VSS.
JRCC Ísland, björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara
Um tölvuvædd fjareftirlitskerfi ein og sér berast stöðinni sem dæmi um ein og hálf milljón tilkynninga á sólarhring þegar mest er. Varðstjórar setja í gang aðgerðir ef hættuástand skapast eða er talið yfirvofandi í samræmi við alþjóðleg markmið handbókar leitar og björgunar frá IMO, (Alþjóðsiglingamálastofnunin) og ICAO, (Alþjóðaflugmálastofnunin) IAMSAR. Stjórnstöð LHG leitast við að leiðbeina sjófarendum um það hvar hægt er að afla upplýsinga um svæðatakmarkanir, umbúnað veiðarfæra og annað sem varðar fiskveiðar og margt fleira. Stjórnstöð LHG var um árabil sambandsaðili við björgunarsveit varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, en eins og kunnugt er var starfsemi varnarliðsins lögð niður á árinu 2006.
Stjórnstöð LHG og VSS er búin sérstökum tölvu- og fjarskiptakerfum, og getur starfað sjálfstætt og óháð almennum fjarskiptakerfum. Markmiðið er að tryggja eins og kostur er virkni stöðvarinnar og fjarskiptasamband hennar og gæslueininganna, annarra skipa og loftfara ef almenn fjarskiptakerfi bregðast, innanlands eða milli landa. Stjórnstöð LHG getur haldið uppi fjarskiptasambandi við varðskipin eða erlendar björgunarstöðvar undir flestum kringumstæðum, um eigin gervihnattastöðvar og stuttbylgju fjarskiptabúnað, auk búnaðs strandastöðva-þjónustunnar í VSS sem er öflugasti hluti fjarskiptakerfanna.
Oft heyra landsmenn fréttir af björgunarstarfi Landhelgisgæslunnar, bæði á sjó og landi, mönnum er bjargað úr sjávarháska eða veikir eða slasaðir sjómenn sóttir á haf út. Einnig má nefna sjúkraflug Landhelgisgæslunnar vegna umferðarslysa eða annarra óhappa hvar sem er á landinu. Þessar aðgerðir hefjast í stjórnstöð LHG/VSS og eru samræmdar þaðan þar til þeim lýkur.