Sprengjusveit

Verkefni sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar er að gera óvirkar og eyða sprengjum er finnast í hafinu við landið. Vegna sérþekkingar sinnar hefur sprengjusveitin jafnframt sinnt sprengjueyðingu og tengdum verkefnum á landi auk þess sem skotvopnaþjálfun áhafna Landhelgisgæslunnar er í höndum sprengjusveitar.

Dagleg verkefni sprengjusveitar felast í:

  • Eyðingu sprengna og annarra hættulegra hluta er koma í veiðarfæri skipa eða finnast í fjörum eða á landi.
  • Leit að sprengjum í skipum og flugvélum.
  • Hreinsun hernaðarsvæða.
  • Skotvopnaþjálfun innan Landhelgisgæslunnar.
  • Þjálfun og kennslu í sprengjuleit og eyðingu.
  • Öryggisgæslu í höfnum vegna komu erlendra herskipa.
  • Sprengjuleit í höfnum.
  • Samskiptum við ýmsa fagaðila, þar á meðal lögreglu.
  • Þjálfun friðargæsluliða og þátttöku í friðargæslustörfum.

Í síðari heimstyrjöldinni var lagt út miklum fjölda tundurdufla hér við land. Bretar reyndu að loka siglingaleiðinni út á Atlantshaf með því að koma fyrir tundurduflabeltum milli Íslands og Skotlands og milli Íslands og Grænlands. Þessi dufl gátu ýmist sprungið við það að skip rækist utan í þau, skynjun á röskun segulsviðs þegar skip siglir framhjá eða sprungu vegna hávaða frá skrúfu skipsins. Þá voru einnig dufl þeirrar gerðar að þau sprungu ef skip rakst utan í ankerisfesti þeirra en þau voru sérstaklega ætluð til að granda kafbátum. Bretar lögðu einnig tundurduflum í nokkra firði hérlendis, Hvalfjörð, Eyjafjörð og Seyðisfjörð. Þessi dufl voru sprengd með stýringu úr landi ef grunur var um kafbát í grenndinni. Þjóðverjar lögðu einnig tundurduflum við landið. Sérbúinn kafbátur kom hingað þrjár ferðir með 66 dufl í hverri. Þessum duflum var lagt í Faxaflóa, Breiðafjörð og út af Austfjörðum.

Vegna hernaðarstarfseminnar var einnig ótölulegur fjöldi allskonar annarra sprengja í notkun, svo sem djúpsprengjur og fallbyssukúlur. Enn í dag eru þessir hlutir að finnast bæði í sjó og á landi, en fjöldi slíkra hluta sem komið hafa til kasta sprengjudeildarinnar skiptir þúsundum. Það er útbreiddur misskilningur að þessir hlutir verði hættulausir með tímanum. Þvert á móti verða þeir yfirleitt mun hættulegri. Sprengiefnið verður viðkvæmara og oft er öryggisbúnaður ónýtur, þannig að sprengjan getur sprungið fyrir annan og minni tilverknað heldur en upphaflega var gert ráð fyrir.

Sprengjudeildin fær því á hverju ári fjölda verkefna vegna hluta frá stríðsárunum en einnig vegna annarra og nýrri hluta. Deildin sinnir einnig fræðslu um meðferð sprengiefna og er oft kölluð til af dómstólum til að gefa sérfræðiálit.

EOD_Technician_on_task

Sprengjudeildin sér um sprengjueyðingu og athuganir á grunsamlegum hlutum sem geta verið sprengjur fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli samkvæmt sérstökum milliríkjasamningi þar um.

Sprengjudeildin er mjög vel búin tækjum og starfsmenn hennar hafa hlotið þjálfun eftir stöðlum NATO í skólum danskra og breskra hernaðaryfirvalda sem stöðugt er haldið við með æfingum og endurþjálfun.

Á undanförnum árum hafa verkefni deildarinnar verið frá 70 til 100 á ári.

_DSC0900