Saga sjómælinga við Ísland
Fyrsta eiginlega sjókortið við Ísland kom út árið 1788. Það var af innanverðum Faxaflóa og byggt á mælingum sem Hans Erik Minor skipstjóri hjá Íslandsversluninni hafði gert á árum 1776 - 1777. Minor kom til Íslands vorið 1778 og hugðist hefja mælingar að nýju þegar það hörmulega slys varð að hann drukknaði ásamt Friisser kortateiknara og fjórum hásetum við skipshlið í Hafnarfirði. Hann hafði þá lokið við mælingu frá Reykjanesi til Snæfellsness. Sjókortið var gefið út af dönsku sjómælingastofnuninni, Det Kongelige Danske Sökort Arkiv, og var reyndar eitt fyrsta kortið sem stofnunin gaf út.
Kotlefjord, Holmens Havn og Skæria Fiord, 1788
Alls urðu kortin fjögur sem gefin voru út og Minor mældi í. Eitt yfirlitskort af öllu svæðinu en hin þrjú eru af meginhluta Faxaflóasvæðisins í minni mælikvarða.
Áður hafði komið út kort af Austfjörðum, sem byggt var á athugunum sem kommandörkaftein Wleugel gerði um borð í freigátunni Kiel árið 1776. Á korti þessu eru sárafáar dýpistölur og getur það varla kallast annað en yfirlitskort af ströndinni. Leiðangurinn virðist ekki hafa verið sendur beinlínis til sjómælinga eins og Mionr, frekar til eftirlits og strandgæslu.
Hann virðist hafa lagt meiri áherslu á að mæla einstaka firði heldur en að gera heildaruppdrátt af mælingasvæðinu þó að hann hafi einnig gert slíkt kort. Eftir hann liggja uppdrættir af fjórum slíkum svæðum: Breiðdalsvík, Fáskrúðsfirði ,Loðmundarfirði og Seyðisfirði . Árið 1778 komu út þrjú kort af ofantöldum fjörðum en yfirlitskortið af Austfjörðum var ekki gefið út fyrr en 1785 og þá á vegum Det Kongelige Danske Sökort Arkiv.
Sérkortin ná aðeins inn í fjarðar- eða víkurbotnana en sýna fátt inn til landsins. Á þeim eru fjölmargar dýptartölur auk þess sem markað er fyrir grynningum. Kortunum fylgja einnig siglingaleiðbeiningar og strandsýni. Yfirlitskortið af svæðinu frá Vesturhorni til Borgarfjarðar er heldur fátæklegt enda ætlaði Wleugel það ekki til birtingar. Mest áhersla er lögð á að sýna umhverfi fjarðanna fjögurra. Ekkert bendir til þess að mælingar Wleugels og félaga hafi átt vera hluti af samfelldri mælingu austurstrandarinnar.
Á árunum 1800-1818 var strandlengja Íslands þríhyrningamæld, var það ekki aðeins gert til að ákvarða legu landsins og lögun, heldur líka til að geta gefið út sómasamleg sjókort yfir strendur landsins. Árangur þessara mælinga voru svo kort yfir alla strandlengjuna, sem gefin voru út á árunum 1820-1823.
Sjómælingar við Ísland lágu svo niðri fram til ársins 1862, en það ár svo og hin næstu höfðu dönsku varðskipin, sem hér voru við gæslu, fyrirmæli um að stunda sjómælingar ásamt því að sinna öðrum verkefnum. Lítið varð úr framkvæmdum, en árangur mælinga varðskips á árunum 1889-1891 varð nýtt sjókort af Húnaflóa.
Þegar fiskveiðar erlendra togskipa fóru að aukast hér við land, var sýnt að betri mælinga var þörf. Þegar mál landhelgisbrjótanna fóru fyrir rétt, komu oft í ljós skekkjur í sjókortunum og annað misræmi, sem orðið gat til þess að landhelgisbrjótarnir væru sýknaðir.
Árið 1898 var veitt fé til mælinga við Ísland, og var svo á hverju ári fram til 1908, að mælingum var talið lokið.
Mælt með handlóði
Þessar dýptarmælingar voru gerðar með handlóði og stóðust fyllilega kröfur tímans, en tímarnir breytast og það sem þótti gott um aldamótin 1900 dugar illa í dag, en eigi að síður byggja sum íslensku sjókortin ennþá allnokkuð á þessum mælingum.
Sögu Sjómælinga Íslands má rekja aftur til árana 1929 þegar Friðrik Ólafsson hóf störf með dönskum mælingamönnum og kynnti sér sjómælingar hjá dönsku sjómælingastofnuninni. Hann starfaði síðan sjálfstætt með starfsaðstöðu hjá skrifstofu Vitamálastjóra og mælingar voru ýmist stundaðar á leiguskipum, varðskipum eða vitaskipinu. Verkefni Íslensku sjómælinganna, en svo hét stofnunin fyrst, heyrðu undir samgönguráðuneytið frá 1930 og var deild innan Vita- og hafnamálastofnunar.
Danir héldu áfram útgáfu og prentun sjókort af íslensku ströndinni allt til ársins 1960 er þeir afhentu Íslendingum öll frumgögn sjókortanna. Sjókortagerðin hefur síðan verið í höndum Íslendinga, og hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að því að endurteikna og gefa út ný kort af ströndinni, jafnframt leiðréttingum á hinum eldri íslensku kortum.
Í byrjun árs 1970 voru Sjómælingar færðar undir dómsmálaráðuneytið og gerðar að sjálfstæðri stofnun og nafninu breytt í Sjómælingar Íslands.
Árið 1982 var Landhelgisgæslu Íslands og Sjómælinga Íslands sameinuð undir stjórn forstjóra Landhelgisgæslu Íslands en að öðru leyti gert ráð fyrir að Sjómælingar Íslands störfuðu sjálfstætt með sérstöku starfsliði og aðgreindu bókhaldi.