Fyrstu áratugirnir
Hinn 23. júní árið 1926 kom til landsins fyrsta varðskipið, sem smíðað var fyrir Íslendinga. Það var gufuskipið Óðinn, 512brúttólesta skip, vopnað tveimur 57 mm fallbyssum. Íslensk landhelgisgæsla hefst þó fyrr eða upp úr 1920 og þá með leiguskipum. Ávallt síðan hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar gætt hagsmuna þjóðarinnar við verndun fiskimiðanna og björgunarstörf, stundum í kröppum dansi, eins og alkunna er. Þeir hafa einnig ávallt verið reiðubúnir til þess að aðstoða sjófarendur og fólk úti á landsbyggðinni, oft á tíðum við erfiðustu aðstæður, þegar öll sund hafa virst lokuð. Að auki hafa þeir lögum samkvæmt gegnt hinum margvíslegustu þjónustuhlutverkum við strendur landsins og á landgrunninu. Mynd Óðinn I. Úr myndasafni Valdimars Jónssonar loftskeytamanns.
Útlendingar hófu veiðar við Íslandsstrendur í upphafi fimmtándu aldar, að því er talið er. Það voru breskir fiskimenn, sem fyrstir sóttu hingað norður í höf, en fljótlega bættust fiskimenn annarra Vestur-Evrópuþjóða í hópinn. Samskipti landsmanna og erlendu fiskimannanna voru yfirleitt góð, þótt á stundum kastaðist í kekki. Einkum eru dæmi um slíkt eftir að dönsk stjórnvöld tóku að sjá ofsjónum yfir þessum veiðum og þeirri verslun, sem tókst með hinum erlendu fiskimönnum og landsmönnum.
Í lok nítjándu aldar verða þáttaskil í þessum samskiptum. Þá hófu bresk fiskiskip veiðar með botnvörpu hér við land. Þau sýndu oft yfirgang og stunduðu jafnvel veiðarnar svo til uppi í landsteinum. Bresku togararnir toguðu iðulega yfir fábrotin veiðarfæri fátækra fiskimanna, án þess að þeir gætu rönd við reist. Urðu af þessu átök og bresku fiskimennirnir oft illa þokkaðir. Hörðustu átökin um aldamótin urðu síðla árs 1899, þegar Hannes Hafstein skáld og sýslumaður, og síðar ráðherra, hugðist taka breskan togara í landhelgi svo til uppi í landsteinum í Dýrafirði. Þeirri viðureign lauk þannig að þrír Íslendingar drukknuðu, en sýslumaður komst af við illan leik.
Danir önnuðust í upphafi landhelgisgæslu við landið, en hún þótti á stundum slælega rekin. Hingað voru send dönsk varðskip yfir sumarmánuðina, eða frá vori og fram á haustdaga, en að vetrarlagi var ekkert eftirlit með veiðiþjófunum við landið.
Samhliða auknu frelsi þjóðarinnar uxu kröfur um bætta landhelgisgæslu. Þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904, féllst danska stjórnin á að láta smíða sérstakt eftirlitsskip til landhelgisgæslu hér við land. Skipið kom í gagnið árið 1906 og hét Islands Falk.
Árið 1913 samþykkti Alþingi lög um stofnun Landhelgissjóðs Íslands, sem starfar enn í dag. Með þessum lögum var samþykkt, að sektarfé fyrir ólöglegar veiðar við Ísland skyldi renna í Landhelgissjóðinn, sem verja átti til eflingar landhelgisvörnum. Hefur sjóðurinn æ síðan verið einn af hornsteinum íslenskrar landhelgisgæslu.
Með hinum sögulegu sambandslögum árið 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki, var ákveðið að Danmörk hefði á hendi landhelgisgæslu hér við land undir dönskum fána, meðan samningurinn væri í gildi, þ.e. í 25 ár eða "þar til Ísland kynni að ákveða að taka hana í sínar hendur að öllu eða nokkru leyti á sinn kostnað", eins og segir í sambandslögunum. Er ljóst að báðar þjóðirnar stefndu að því að landhelgisvarslan yrði í höndum Íslendinga. Þangað færðist hún einnig smám saman, en þó önnuðust Danir vissa gæslu hér við land ásamt Íslendingum alveg fram að síðari heimsstyrjöld.
Ári eftir samþykkt sambandslaganna 1919 samþykkti Alþingi lög um landhelgisvörn, þar sem landsstjórninni var heimilað "að kaupa eða láta byggja, svo fljótt sem verða má, eitt eða fleiri skip til landhelgisvarna með ströndum Íslands". Einnig var í lögunum heimild fyrir stjórnina til þess að taka á leigu skip á meðan hentugt skip væri í smíðum. Var þessi heimild notuð og á næstu árum tók landsstjórnin bæði báta og skip á leigu til landhelgisvörslu.
Það var þó ekki fjárvana landssjóður, sem keypti fyrsta íslenska björgunarskipið. Árið 1920 keypti Björgunarfélag Vestmannaeyja rúmlega 200 rúmlesta, tuttugu og eins árs gamalt danskt skip, Thor sem upphaflega var togari smíðaður í Englandi fyrir dansk-íslenska verslunar- og fiskveiðifélagið á Geirseyri, til þess að hafa eftirlit með fiskibátum Eyjamanna og aðstoða þá eftir því sem þörf gerðist. Björgunarfélagið fékk styrk úr landssjóði til kaupanna er nam þriðjungi kaupverðsins. Skipinu var gefið nafnið Þór.
Útgerð skipsins varð Vestmannaeyingum kostnaðarsöm og naut hún styrks úr landssjóði. Dómsmálaráðuneytið fór fljótlega að huga að því að nýta skipið einnig til landhelgisgæslu, og árið 1924 var sett á það 47 mm fallbyssa. Árið eftir hófst svo smíði Óðins úti í Danmörku og um það leyti sem Óðinn kom í gagnið keypti landssjóður Þór af Björgunarfélagi Vestmannaeyja og fékk afsal fyrir skipinu 1. júlí 1926, en landssjóður hafði þá annast rekstur skipsins um nokkurra ára skeið.
Árið 1930 var Landhelgisgæslan falin Skipaútgerð ríkisins, en æðsti yfirmaður Landhelgisgæslunnar var þó dómsmálaráðherrann, svo sem verið hefur frá upphafi og er fram á þennan dag. Mun tilgangurinn með því að fela Skipaútgerðinni reksturinn hafa verið sá að með því móti mætti draga úr rekstrarkostnaði. Það mun þó mála sannast að við þetta varð Landhelgisgæslan hálfgert olnbogabarn og endurnýjun skipaflotans varð lítil næstu árin. Landhelgisgæslan varð síðan sjálfstæð stofnun árið 1952 og sérstakur forstjóri ráðinn.
Árið 1948 samþykkti Alþingi hin merku lög, "um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins", þar sem kveðið var á um yfirráð Íslendinga yfir landgrunninu og rétti þeirra til nýtingar þeirra fiskstofna, sem þar lifðu svo og víðtækar rannsóknir á þeim. Þessi lög voru einstæð í heiminum, þegar þau voru samþykkt, og á þeim hafa síðan byggst allar aðgerðir Íslendinga til verndar fiskstofnum okkar, þar með talin útfærsla fiskveiðilandhelginnar. Landhelgi Íslands var þrjár sjómílur, eins og almennt tíðkaðist, þegar landgrunnslögin voru sett. Viðmiðunarstaðir voru fjölmargir og það voru aðeins þröngir firðir, sem voru alfriðaðir. Allir stórir flóar voru opnir erlendum veiðiskipum upp að þremur mílum frá landi.
Báðar heimsstyrjaldirnar urðu til þess að erlend fiskiskip veiddu ekki hér við land meðan ófriður stóð yfir. Álagið var samt mikið á starfsmenn Landhelgisgæslunnar, því mörg voru verkefnin, meðal annars mikil björgunarstörf, eyðing tundurdufla og margs konar flutningar á fólki og vörum, vegna almenns skipaskorts.
Þegar síðari styrjöldinni lauk flykktust erlendu fiskiskipin að nýju á Íslandsmið. Mönnum varð ljóst að taumlaus rányrkja var í uppsiglingu, og árið 1952 var landhelgin færð út á grundvelli landgrunnslaganna frá 1948. Sjálf útfærslan var ekki nema ein sjómíla, en sú mikla breyting varð á, að nú var miðað við ystu annes og eyjar, allt í kringum landið, þannig að hinir stóru flóar urðu alfriðaðir. Við þetta stækkaði fiskveiðilandhelgin úr 25 þúsund km2 í 43 þúsund km2.
Erlendar fiskveiðiþjóðir misstu við þetta spón úr aski sínum, einkum Bretar, sem ávallt höfðu sótt mest erlendra þjóða á Íslandsmið. Þeir reyndu að kúga Íslendinga til þess að láta af útfærslunni, meðal annars með víðtæku löndunarbanni á íslenskan fisk í breskum höfnum. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði, því að Íslendingar komu með mótleik. Þeir stórefldu hraðfrystiiðnað sinn og öfluðu sér nýrra markaða.
Með útfærslunni 1952 var hrundið af stað þróun, sem ekki varð stöðvuð. Mönnum varð ljóst, að miklu víðtækari friðunaraðgerða var þörf til þess að vernda fiskistofnana á íslenska landgrunninu gegn sífellt stærri og betur búnum veiðiskipum, bæði erlendum og innlendum. Því var fiskveiðilögsagan enn færð út árið 1958 og í það skiptið í 12 sjómílur. Við það stækkaði fiskveiðilögsagan úr 43 þúsund km2 í 70 þúsund km2.
Nú urðu viðbrögð Breta harðari en áður, enda vissu þeir að löndunarbann yrði lítils virði. Þeir sendu herskip á vettvang og hótuðu að sökkva íslensku varðskipunum. Fyrsta raunverulega þorskastríðið hófst.
Aldrei hefur athygli þjóðarinnar beinst eins að Landhelgisgæslunni og starfsmönnum hennar og í þorskastríðunum þremur. Þjóðin stóð einhuga að baki aðgerðum og hvatti starfsmenn Landhelgisgæslunnar óspart til dáða. Síendurteknar hótanir breskra flotaforingja um að láta vopnin tala, hertu menn einungis upp. Segja má að fyrsta þorskastríðið hafi verið stórátakalítið, miðað við það sem síðar varð, fremur taugastríð en vopnaskak. Svo fór að báðir aðilar gáfu nokkuð eftir og Bretar sættust á að viðurkenna 12 mílna fiskveiðilögsöguna, gegn því að fá að veiða um nokkurn tíma innan hennar, en engu að síður var þetta mikill sigur fyrir okkur Íslendinga.
Fordæmi Íslendinga vakti mikla athygli annarra þjóða, einkum þeirra er áttu auðug fiskimið undan ströndum sínum. Fleiri og fleiri fetuðu í fótspor Íslendinga og hreyfing komst á málin á alþjóðavettvangi, þar sem menn fóru að ræða um enn stærri fiskveiðilögsögu.
Árið 1972 færðu Íslendingar fiskveiðilögsögu sína enn út og nú í 50 sjómílur og aftur 1975 í 200 sjómílur. Við það stækkaði lögsagan úr 75 þúsund km2 í 216 þúsund km2 árið 1972 og í 758 þúsund km2 árið 1975.
Nú brugðust Bretar enn harðar við, enda var þeim og öðrum úthafsveiðiþjóðum ljóst, að hér var ekki einvörðungu um íslensku fiskveiðilögsöguna að tefla, heldur hlutu úrslit mála að ráða miklu um hver framtíðarþróunin yrði á alþjóðavettvangi.
Bretar sendu flota herskipa og aðstoðarskipa á vettvang í öðru og þriðja þorskastíðinu, og skipuðu togurum sínum að veiða undir þeirra vernd innan fiskveiðilögsögunnar. Einnig sendu þeir hingað öfluga dráttarbáta, sem einkum virtust hafa það hlutverk að sigla á íslensku varðskipin og gera þau óvirk. Hvað eftir annað reyndu flotaforingjarnir að sigla varðskipin niður á herskipum og dráttarbátum, og urðu oft háskalegir árekstrar. Ekki er ofsagt að það hafi verið hrein mildi að ekki urðu stórslys í þorskastríðunum, en íslensku skipherrarnir og starfsmenn þeirra sýndu fádæma leikni og hugkvæmni við að gera Bretunum lífið óbærilegt innan fiskveiðilögsögunnar.
Það sem mest fór í taugarnar á Bretum voru togvíraklippur, sem Íslendingar útbjuggu og notuðu til þess að skera veiðarfærin aftan úr bresku togurunum. Varðskipin laumuðust inn í togaraþvöguna og drógu klippurnar á eftir sér. Reyndu þá bæði togarar og verndarskip þeirra, herskip og dráttarbátar, að sigla varðskipin niður.
Eins og allir vita lauk þessum þremur þorskastríðum öllum á einn veg: Með fullum sigri Íslendinga. Stefna þeirra sigraði einnig á alþjóðavettvangi, þrátt fyrir mjög harða andstöðu margra voldugra þjóða. Þessir sigrar hefðu ekki unnist nema vegna frábærra starfa allra starfsmanna Landhelgisgæslunnar, hárra sem lágra.