Vegna leitar að Birnu Brjánsdóttur

Þyrlan TF-LIF fann lík nærri Selvogsvita sem talið er að sé af Birnu Brjánsdóttur. 

Um klukkan eitt í dag fann áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, lík í fjörunni rétt vestur af Selvogsvita, sem er um 15 kílómetra vestur af Þorlákshöfn. Þyrlan lenti skammt frá vettvanginum og var lögreglu strax gert viðvart. Hún kom á staðinn skömmu síðar. Talið er að líkið sé af Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið frá því á laugardag fyrir rúmri viku.

 TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 10.40. Auk fullrar áhafnar voru um borð tveir sérhæfðir leitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Áformað var að fljúga meðfram strandlengjunni frá Hafnarfirði, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanes og allt austur að Þjórsárósum. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan 16.10.

Landhelgisgæslan vottar ástvinum Birnu Brjánsdóttur innilega samúð.

 Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur undanfarna daga tekið þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur. TF-LIF flutti sérsveitarmenn um borð í danska herskipið Tríton og grænlenska togarann Polar Nanoq í nýliðinni viku. Þá leituðu kafarar Landhelgisgæslunnar í Hafnarfjarðarhöfn að vísbendingum sem varpað gætu ljósi á hvarf Birnu. Bátarnir Baldur og Óðinn voru notaðir við leitina.