Villakaffi í flugskýli Landhelgisgæslunnar

Látins félaga minnst með árlegu kaffisamsæti

Það var falleg stund í morgun þegar starfsfólk Landhelgisgæslunnar kom saman á kaffistofunni í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli til að minnast látins félaga, Vilhjálms Óla Valssonar yfirstýrimanns og sigmanns. Vilhjálmur hefði átt 45 ára afmæli á morgun, 14. janúar, en hann lést úr krabbameini fyrir rétt tæpum fjórum árum. 

Foreldrar Vilhjálms, þau Valur Einarsson og Dagný Heiða Vilhjálmsdóttir, og fjölskylda hans hafa æ síðan efnt til Villakaffis í tengslum við afmælisdaginn. 

Vilhjálmur Óli greindist með krabbamein í vélinda árið 2012. Hann vakti á sínum tíma mikla athygli í tengslum við áheitasöfnunina Mottumars en hann stóð uppi sem sigurvegari einstaklingskeppninnar. Hann lést 30. mars 2013.

Einar Valsson, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, er bróðir Vilhjálms heitins, en hann er hér á myndinni til hægri ásamt foreldrum þeirra Vilhjálms og Berglindi Jónsdóttur, eftirlifandi eiginkonu hans.

IMG_8023-001

Valur Einarsson og Dagný Heiða Vilhjálmsdóttir, foreldrar Vilhjálms Óla, Berglind Jónsdóttir, ekkja hans, auk Sigurðar Heiðars Wiium, yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar. Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók myndirnar.