Vel gekk að koma mönnunum frá borði.
29.11.2019 Kl: 11:00
Fjórum mönnum var bjargað um borð í TF-EIR, þyrlu
Landhelgisgæslunnar, eftir að fiskibátur strandaði í vestanverðum Þistilfirði.
Það
var á fimmta tímanum í nótt sem áhöfnin á línubátnum Lágey ÞH-265 hafði samband
við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð. Báturinn var þá
strandaður um miðja vegu milli Þórshafnar og Raufarhafnar. Lágey er 15 tonna
yfirbyggður trefjaplastbátur og um borð voru fjórir skipverjar.
Veður var með
ágætum á strandstað, logn og gott skyggni. Áhöfnin á TF-EIR var þegar í stað kölluð út
sem og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Björgunarskipið
Gunnbjörg og línubáturinn Háey frá Raufarhöfn héldu á staðinn sem og
slöngubáturinn Jón Kr. frá Þórshöfn.
Vel fór um áhöfn fiskibátsins meðan beðið var
eftir aðstoð en vegna myrkurs komst áhöfnin ekki í land. Þegar þyrla
Landhelgisgæslunnar kom á staðinn hófst áhöfn þyrlunnar þegar handa við að koma
mönnunum frá borði. Það gekk vel og örfáum mínútum eftir að þyrlan kom á
strandstað, eða laust eftir klukkan sjö, voru mennirnir fjórir komnir um borið í
TF-EIR.
Flogið var með áhöfnina til Akureyrar en björgunarsveitir Slysavarnafélagsins
Landsbjargar hófust handa við að koma bátnum aftur á flot. Það gekk vel og nú á tólfta
tímanum er björgunarskipið Gunnbjörg með Lágey í togi áleiðis til Raufarhafnar.