Áhöfnin á TF-GRO sótti veikan skipverja

7. febrúar, 2020

Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á tíunda tímanum í morgun til að sækja veikan sjómann sem var um borð í grænlensku togara

7.2.2020 Kl: 14:44

Áhöfnin á TF-GRO sótti veikan skipverja

Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út á
tíunda tímanum í morgun til að sækja veikan sjómann sem var um borð í
grænlenskan togara sem staddur var rúmlega 150 sjómílur vestur af Látrabjargi,
rétt utan miðlínu milli Ísland og Grænlands. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð
frá björgunarstjórnstöðinni í Danmörku.

Skipið tók stefnuna
til Íslands en slæmt veður var á þeim slóðum þar sem skipið var statt. TF-GRO
tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan 10 en jafnframt var
áhöfnin á TF-EIR til taks á Reykjavíkurflugvelli ef á þyrfti að halda. Eftir rúmlega hálftíma flug lenti þyrlan á
Rifi til að fylla á eldsneytistankana áður en haldið var í átt að skipinu.

Þyrlan var komin að grænlenska togaranum á tólfa tímanum og
hófst áhöfnin þegar handa við að undirbúa hífingar. Sigmaður
Landhelgisgæslunnar fór um borð í skipið og undirbjó sjúklinginn til flutnings.
Þrátt fyrir nokkuð krefjandi aðstæður gengu hífingar vel og að þeim loknum var haldið rakleiðis á
Reykjavíkurflugvöll. Þar lenti TF-GRO klukkan 13:42 og í kjölfarið var
skipverjinn fluttur þaðan með sjúkrabíl á Landspítalann.

20200207_113937637_iOSGuðmundur Ragnar Magnússon, sigmaður, fer um borð í grænlenska togarann.

TF-GRO sækir veikan skipverja