Baldur farinn til mælinga

20. maí, 2021

Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur hélt af stað í árlegt sjómælingaúthald mánudaginn 10. maí síðastliðinn.

20.5.2021 Kl: 14:40

Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur hélt af stað í
árlegt sjómælingaúthald mánudaginn 10. maí síðastliðinn. Þó svo að megin
verkefni Baldurs séu dýptarmælingar fyrir sjókortagerð þá sinnir hann einnig
öðrum verkefnum Landhelgisgæslunnar, þar með talið eftirliti, löggæslu, leit og
björgun og aðstoð ýmiskonar. Má þar nefna að á leið sinni frá Reykjavík vestur
á firði var Baldur kallaður til aðstoðar vélarvana smábáti í Faxaflóa og var sá
dreginn til hafnar á Akranesi.

Í sumar verður áfram haldið með mælingar við norðanverða
Vestfirði, en skipulegar dýptarmælingar með fjölgeislamæli í Ísafjarðardjúpi,
Jökulfjörðum og við Hornstrandir hófust í fyrra.

Fyrstu daga yfirstandandi túrs var Baldur við mælingar í
Hlöðuvík á Hornströndum en færði sig svo inn í Ísafjarðardjúp til mælinga í
Ísafirði, innst í Djúpinu.

Mælingar í Ísafirði hófust síðastliðinn laugardag en ekki
vildi betur til en svo að undir kvöld fékk Baldur tóg í skrúfurnar, en það
hafði marað rétt undir yfirborði. Um var að ræða bólfæri sem engin flot voru á
og því ekki sýnileg. Áhöfninni tókst að losa tógið úr skrúfunum en þar sem
viðkvæmur mælingabúnaður er undir Baldri var ákveðið að fá kafara frá
séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar til að kafa undir skipið og athuga hvort
allt væri í lagi, sem reyndist vera.

Fjölgeislamælingar í Ísafirði gengu að öðru leyti mjög
vel og lauk þeim í gærkvöldi en fjörðurinn var alveg ómældur áður. Fiskibátar í
Djúpinu hafa þó stundað veiðar í firðinum en sennilega hefur ekkert skip
Landhelgisgæslunnar áður farið alveg inn í fjarðarbotn. Í lok gærdags lagðist
Baldur við akkeri innst í firðinum til næturdvalar en í morgun þegar akkeri var
létt var fjörðurinn þakinn þunnum lagnaðarís og má því segja að Ísafjörður beri
nafn með rentu.

Tryggvi-velstjori-nytur-morgunblidunnar-og-horfir-yfir-lagnadarisinn-Large-Tryggvi vélstjóri nýtur morgunblíðunnar og horfir yfir lagnaðarísinn.

Smabatur-tekinn-i-tog-a-Faxafloa-Large-Smábátur tekinn í tog.

Kafarar-seradgerdarsveitar-vid-storf-vid-Baldur-Large-Kafarar séraðgerðarsveitar kafa undir Baldur. 

Stytt-i-drattartogi-vid-Akraneshofn-Large-Stytt í dráttartógi við Akraneshöfn. 

Ahofn-Baldurs-og-hluti-kortagerdarfolks-sjomaelingadeildar-Large-

Áhöfn Baldurs og starfsmenn sjómælingadeildar rétt fyrir brottför vestur.

F.v. Hjörtur F Jónsson stýrimaður, Tryggvi Ólafsson
vélstjóri, Þórður Gíslason kortagerðarmaður, Guðm. Birkir Agnarsson skipstjóri,
Marteinn E. Þórdísarson bátsmaður, Andri Leifsson stýrimaður, Níels B. Finsen
verkefnastjóri, Árni Þ. Vésteinsson deildarstjóri.

Vid-dyptarmaelingar-i-Isafirdi-Large-Við dýptarmælingar á Ísafirði.

Baldur-vid-akkeri-innst-i-IsafirdiBaldur við akkeri innst í Ísafirði.