Umfangsmikil fjöldabjörgunaræfing fór fram á Ísafjarðardjúpi í dag. Landhelgisgæsla Íslands stóð að æfingunni í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, lögregluna á Vestfjörðum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauða krossinn, Neyðarlínuna, slökkviliðin á Vestfjörðum og aðra viðbragðsaðila. Afar mikilvægt er að æfa með reglubundnum hætti þær krefjandi aðstæður sem upp kunna að koma og samhæfa viðbrögð íslenskra viðbragðsaðila. Varðskipið Þór […]
Umfangsmikil fjöldabjörgunaræfing fór fram á Ísafjarðardjúpi í dag. Landhelgisgæsla Íslands stóð að æfingunni í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, lögregluna á Vestfjörðum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauða krossinn, Neyðarlínuna, slökkviliðin á Vestfjörðum og aðra viðbragðsaðila.
Afar mikilvægt er að æfa með reglubundnum hætti þær krefjandi aðstæður sem upp kunna að koma og samhæfa viðbrögð íslenskra viðbragðsaðila.
Varðskipið Þór var í hlutverki farþegaskips á æfingunni í dag og kom það í hlut þeirra viðbragðsaðila sem tóku þátt í æfingunni að vinna saman að því að koma farþegum frá borði og samræma aðgerðir.
Á undanförnum mánuðum hefur Landhelgisgæslan unnið að viðbragðsáætlun vegna fjöldabjörgunar á hafinu en henni er ætlað að ná yfir hópslys sem verða á leitar- og björgunarsvæði Íslands umhverfis landið.
Landhelgisgæslan hefur það að markmiði að æfa viðbrögð sem þessi víða um land. Viðbrögð viðbragðsaðila og samvinna þeirra var til fyrirmyndar á æfingunni í dag sem heppnaðist sérlega vel.
Ljósmyndir: Halldór Sveinbjörnsson