Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar auk sjóbjörgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Patreksfirði, Grundarfirði, Rifi og Stykkishólmi voru kallaðar út á öðrum tímanum í nótt í kjölfar þess að staðsetningarmerki fiskibáts bárust ekki lengur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Að auki svaraði eigandi bátsins ekki köllum Landhelgisgæslunnar í gegnum talstöð og ekki náðist í viðkomandi í síma. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar […]
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar auk sjóbjörgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Patreksfirði, Grundarfirði, Rifi og Stykkishólmi voru kallaðar út á öðrum tímanum í nótt í kjölfar þess að staðsetningarmerki fiskibáts bárust ekki lengur stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Að auki svaraði eigandi bátsins ekki köllum Landhelgisgæslunnar í gegnum talstöð og ekki náðist í viðkomandi í síma.
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskuðu eftir því að bátar í grenndinni héldu á vettvang til að svipast um eftir bátnum sem saknað var auk þess sem sjófarendum á norðanverðum Breiðafirði var tilkynnt um leitina á rás 16.
Síðasta þekkta staðsetning bátsins var um 5,6 sjómílur suðaustur af Brjánslæk. Fyrsti bátur sem kom á leitarsvæðið sá ekki til fiskibátsins en skyggni til leitar var slæmt á Breiðafirði sökum þoku.
Landhelgisgæslan óskaði einnig eftir því við lögregluna á Vestfjörðum að kanna hvort báturinn kynni að vera kominn til hafnar þrátt fyrir að slíkar upplýsingar hefðu ekki borist stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Laust fyrir klukkan þrjú kom í ljós að báturinn sem leitað var að var kominn til hafnar á Brjánslæk og var leit þá afturkölluð.
Eitt af hlutverkum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar er að fylgjast með bátunum á hafsvæðinu umhverfis Ísland en þeir tilkynna sig inn í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar við brottför. Hverfi bátar úr ferilvöktun stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar setja varðstjórar þar ferli í gang til að hafa upp á viðkomandi og hefja leit í framhaldinu.
Landhelgisgæslan áréttar mikilvægi þess að sjófarendur tilkynni sig úr höfn við brottför, hlusti vel á rás 16 og fari vel yfir virkni þess öryggisbúnaðar sem um borð er. Einnig er mjög mikilvægt að sjómenn tilkynni um breytt símanúmer um borð.