Óvissustigi lýst yfir um tíma vegna ferjuflugvélar

26. maí, 2025

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lýsti yfir óvissustigi á þriðja tímanum í dag vegna eins hreyfils ferjuflugvélar sem ekki náðist samband við. Flugvélin var á leið frá Narsarsuaq á Grænlandi til Keflavíkur. Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík hafði samband við Landhelgisgæsluna á þriðja tímanum í dag þegar flugmaður vélarinnar hafði ekki tilkynnt um ferðir sínar eins og gert var ráð […]

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lýsti yfir óvissustigi á þriðja tímanum í dag vegna eins hreyfils ferjuflugvélar sem ekki náðist samband við. Flugvélin var á leið frá Narsarsuaq á Grænlandi til Keflavíkur. Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík hafði samband við Landhelgisgæsluna á þriðja tímanum í dag þegar flugmaður vélarinnar hafði ekki tilkynnt um ferðir sínar eins og gert var ráð fyrir. Hann var einn um borð. Vélin sást ekki á ratsjá og svaraði ekki kalli.

Landhelgisgæslan tilkynnti dönsku herstjórninni á Grænlandi um málið og var eftirlitsflugvél frá danska flughernum send til að hefja eftirgrennslan. Þá var áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, kölluð út og var við það að fara í loftið til leitar þegar loks náðist samband við flugmann vélarinnar auk þess sem merki frá flugvélinni fór að sjást í kerfum stjórnstöðvar Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli. Þá voru tveir björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kallaðir út til að fara með TF-SIF til leitar.

Umfang málsins var töluvert og reyndi á samvinnu stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð, dönsku herstjórnarinnar, Flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík og stjórnstöðvar Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.