Landhelgisgæsla Íslands gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að leitar-, björgunar- og sjúkraþjónustu á Norður-Atlantshafi. Þáttur stjórnstöðvarinnar í Skógarhlíð er veigamikill þegar mál af slíkum toga koma upp enda er það hlutverk varðstjóra í stjórnstöð að samhæfa aðgerðir og sjá til þess að unnt sé að leysa þau verkefni sem upp koma með farsælum hætti. Síðastliðnir […]
Landhelgisgæsla Íslands gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að leitar-, björgunar- og sjúkraþjónustu á Norður-Atlantshafi. Þáttur stjórnstöðvarinnar í Skógarhlíð er veigamikill þegar mál af slíkum toga koma upp enda er það hlutverk varðstjóra í stjórnstöð að samhæfa aðgerðir og sjá til þess að unnt sé að leysa þau verkefni sem upp koma með farsælum hætti.
Síðastliðnir sólarhringar hafa verið annasamir hjá varðstjórum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.
Á sunnudaginn bárust tvær beiðnir um sjúkraflug á haf út. Önnur barst frá íslensku skipi sem var að veiðum í Síldarsmugunni. Skipið var þá um 350 sjómílur frá austurströnd Íslands en í um 230 sjómílna fjarlægð frá Noregi. Beiðni um aðstoð barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og var það mat vakthafandi læknis þyrlusveitarinnar að sækja þyrfti skipverjann og koma honum undir læknishendur. Varðstjórar stjórnstöðvar höfðu þá samband við kollega sína í björgunarmiðstöðinni í Noregi sem kölluðu út þyrlu frá Noregi sem sótti manninn.
Síðar um daginn barst beiðni frá skipstjóra rússnesks togara sem óskaði eftir aðstoð vegna slyss sem varð um borð. Togarinn var þá um 600 sjómílur Suðvestur af Reykjanesi. Að höfðu samráði við björgunarmiðstöðina í Grænlandi var ákveðið að þyrla frá Íslandi myndi sækja skipverjann en til þess að það væri mögulegt yrði skipið að sigla inn í íslenska efnahagslögsögu. Þegar skipið var komið nógu nálægt landi voru áhafnir tveggja þyrlna Landhelgisgæslunnar kallaðar út í morgun. Áhöfn annarrar þyrlunnar annaðist útkallið sjálft og hin var til taks af öryggisástæðum.
Þyrlurnar komu að skipinu þegar það var um 120 sjómílur suðvestur af Reykjanestá. Sigmaður þyrlunnar og læknir fóru um borð í skipið og vel gekk að koma hinum slasaða um borð í þyrluna.
Á bakaleiðinni barst enn á ný beiðni um aðstoð þyrlusveitarinnar. Nú vegna göngukonu sem hafði slasast við Hrafntinnusker. Þyrlan sem var til taks flaug til Reykjavíkurflugvallar þar sem fyllt var á eldsneytisbirgðir þyrlunnar á meðan hin þyrlan flutti rússneska skipverjann á Landspítalann í Fossvogi.
Þegar búið var að sækja göngukonuna við Hrafntinnusker og flytja hana um borð í þyrluna barst enn eitt útkallið, nú vegna manns sem var með hjartaverk í Reykjadal. Ákveðið var að halda þangað í leiðinni, sækja umræddan sjúkling, og flytja hann, ásamt göngukonunni, á Landspítalann.
Eins og samantektin ber með sér hafa varðstjórar í stjórnstöð og þyrlusveitin haft í nógu að snúast undanfarna daga.
Flugleið annarrar þyrlunnar. Fyrst var farið út á haf, þaðan til Reykjavíkur, þvínæst í Hrafntinnusker, þá í Reykjadal og loks aftur til Reykjavíkur.
Frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.