Viljayfirlýsing um nýtt nám undirrituð um borð í varðskipinu Þór

29. ágúst, 2025

Viljayfirlýsing um nýtt stjórnunarnám í hafsvæðastjórnun á háskólastigi var undirrituð  um borð í varðskipinu Þór í Reykjavíkurhöfn í gær. 

Um er að ræða samstarfsverkefni Landhelgisgæslu Íslands, Háskólans á Bifröst og Tækniskólans um nám sem leggur áherslu á leit og björgun á sjó, leiðtogafræði og hafsvæðastjórnun. Markmið námsins er meðal annars að koma til móts við þarfir atvinnulífsins um fagmenntun stjórnenda og tækifæri til frekari starfsþróunar hjá einstaklingum sem starfa í sjávarútvegstengdum greinum. Meginþættir námsins munu byggja á leiðtogafræðum, stjórnun, siglingafræði, lögfræði, öryggismálum auk þess sem áhersla verður lögð á leit og björgun. 

Skipulag námsins verður byggt upp í samstarfi við Landhelgisgæsluna. Lengd námsins verður fjórar annir. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir þetta mikilvægt framfaraskref.

,,Ég fagna því að skólarnir tveir og Landhelgisgæslan séu að taka höndum saman um að móta þetta mikilvæga nám þar sem hver skóli/stofnun leggur til sína sérþekkingu í hafsvæðastjórnun og nemendur munu ljúka diplómanámi á háskólastigi sem mun geta nýst þeim til áframhaldandi háskólanáms standi vilji þeirra til þess. Ég tel að tækifæri til samstarfs sem þessa séu mörg og að samstarf framhaldsskóla sem mennta til starfa og háskóla sé mikilvægt í nútímanum, samfélaginu öllu til heilla“.

Námið er sérstaklega miðað að nemendum sem lokið hafa D- réttindum skipstjórnar. Náminu er einnig ætlað að höfða til breiðari hóps sem vill efla þekkingu sína á haf- og öryggistengdum málefnum. Námið er jafnframt hugsað til að koma til móts við þarfir samtímans með því að fullnægja skilyrðum sem sett eru um menntun skipstjórnarfólks Landhelgisgæslunnar, þ.e. svokallað E – réttinda skipstjórnarnám sem veitir skipherraréttindi á varðskipi sem er æðsta menntun skipstjórnar á Íslandi.

,,Með tilkomu þessa metnaðarfulla náms er stigið stórt og mikilvægt framfaraskref í menntun stjórnenda til sjós og þeirra sem hafinu tengjast sem er í takti við auknar kröfur samtímans. Við hjá Landhelgisgæslunni höfum lengi talað fyrir því að nám sem þetta komist á laggirnar og framlag Tækniskólans og Háskólans Bifröst er ómetanlegt. Námið mun án nokkurs vafa stuðla að aukinni hæfni og öryggi þeirra sem veljast til leiðtogastarfa á hafsvæðinu umhverfis Ísland.“ Segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.

Myndir: Bjarki Jóhannsson

default