
Við hjá Landhelgisgæslunni fengum einstaklega skemmtilega sendingu á dögunum þegar okkur bárust myndir af afrakstri stórglæsilegs verkefnis 6. bekkjar í Hrafnagilsskóla í Eyjafirði. Krakkarnir hafa verið að læra um þriðja og síðasta þorskastríðið í tilefni þess að hálf öld er liðin frá því að fiskveiðilögsagan var færð út í 200 sjómílur.
Þau fengu þá áskorun að búa til líkan af varðskipaflota Íslands úr afgöngum heimilis þeirra af pappa og öðrum efnivið.
Afraksturinn er stórglæsilegur en krakkarnir útbjuggu líkön af helstu varðskipunum þjóðarinnar sem tóku þátt í þorskastríðunum sem og núverandi varðskipum. Krakkarnir gerðu frábærar eftirmyndir af Óðni, Ægi og Tý ásamt Þór og Freyju.
Hulda Björk Snæbjörnsdóttir, umsjónarkennari 6. bekkjar í Hrafnagilsskóla, leiðbeindi krökkunum í þessu skemmtilega verkefni.
,,Börnin bjuggu til skipin fríhendis og er algjörlega þeirra hugmyndaflug þó þau studdust við myndir af skipunum, vopnuð límbyssum og þrautseigju.“ Segir Hulda.
Okkur hjá Landhelgisgæslunni þykir vænt um að sjá unga fólkið okkar sýna þessari merku sögu jafn mikinn áhuga og virðingu eins og þessir flottu krakkar hafa gert. Hver veit nema í þessum metnaðarfulla hópi leynist framtíðar starfsfólk Landhelgisgæslunnar.
Landhelgisgæsla Íslands þakkar þeim kærlega fyrir að deila afrakstrinum með okkur sem við fengum leyfi til að deila með ykkur, enda sannarlega ástæða til.

Varðskipið Týr.

Varðskipið Ægir.

Varðskipið Óðinn.

Varðskipið Freyja.

Varðskipið Þór.