Áhöfnin á Þór hélt jólabingó til styrktar Píeta samtökunum

19. desember, 2025

Á sunnudaginn, þann þriðja í aðventu, gerði áhöfnin á varðskipinu Þór sér glaðan dag og hélt hin árlegu litlu jól. Líkt og hefð er fyrir tók hún saman pistil af því tilefni:

,,Dagurinn hófst með hefðbundnu sniði. Upp úr hádegi, sveif jólaandinn yfir vötnum og hin sívinsæla piparkökuskreytingakeppni fór fram. Að lokinn harðri en bragðgóðri keppni var sigurvegari krýndur og hlaut að launum nafnbótina ,,piparköku kóngur varðskipsins Þórs“.

Þegar líða fór að kvöldi, fór áhöfnin í sitt fínasta púss og mætti til kvöldverðar þar sem kvartett varðskipsins „Vitringarnir fjórir“ spiluðu og sungu nokkur vel valin jólalög áður en áhöfnin gæddi sér á afbragðs jólakræsingum sem Arndís Brynja, bryti, töfraði fram.

Hið árlega jólabingó hófst á áttunda tímanum þar sem áhöfnin klæddist litríkum jólapeysum hélt jólabingóið þar sem veglegir vinningar voru í boði, sem bárust frá velunnurum áhafnarinnar. Við kunnum þeim okkar bestu þakkir fyrir.

Líkt og hefð er fyrir vildi áhöfnin láta gott af sér leiða og því var ákveðið að allur ágóði af seldum bingóspjöldum rynni til góðs málefnis. Alls söfnuðust 260.000 krónur sem runnu óskertar til Píeta samtakanna.

Áhöfnin á varðskipinu Þór þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og sendir landsmönnum öllum, fjölskyldum, samstarfsfélögum og vinum óskir um gleðileg jól.“