
Flugvélin TF-SIF nýttist vel til leitar og eftirlitsflugs á Íslandi á árinu.
Í gær sinnti áhöfn vélarinnar hefðbundnu eftirlits- og æfingarflugi á hafsvæðinu fyrir norðan og vestan land. Vélin lenti að því búnu á Akureyrarflugvélli. Þegar hún var nýtekin á loft þaðan, á leið til Reykjavíkur, bárust upplýsingar um að leit væri að hefjast norður af Heklu vegna ferðamanna í jeppabifreið sem væru í vanda.
Ákveðið var að flugvélinni yrði flogið yfir svæðið til að koma auga á bílinn. Eftir stutta leit fann áhöfnin á TF-SIF jeppann og var lendingarljósum flugvélarinnar blikkað í átt að fólkinu sem gat blikkað til baka með ljósum bílsins.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sendi björgunarsveitarfólki Landsbjargar nákvæma staðsetningu bílsins sem kom fólkinu til aðstoðar í kjölfarið.

