Fyrsti 100 ára afmælisviðburðurinn haldinn á Þingeyri

26. janúar, 2026

Í tilefni 100 ára afmælis Landhelgisgæslu Íslands mun Gæslan bjóða þjóðinni um borð tækjakost stofnunarinnar á árinu. Fyrsti afmælisviðburðurinn fór fram á föstudag þegar leik- og grunnskólanum á Þingeyri var boðið um borð í varðskipið Þór sem var þar við bryggju. Áhöfnin tók vel á móti áhugasömum nemendum og kennurum og sýndu skipið og fræddu gestina um hlutverk þess.

Á laugardaginn var gestum og gangandi boðið að koma um borð. Tæplega 200 manns þáðu boðið og skoðuðu skipið hátt og lágt í fylgd áhafnarinnar.

Sigmundur F. Þórðarson, formaður íþróttafélagsins Höfrungs, kom færandi hendi með blómvönd í tilefni aldarafmælisins. Höfrungur fagnaði einmitt 100 ára afmæli fyrir rétt rúmu ári en félagið gaf áhöfninni jafnframt könnu sem búin var til í tilefni 100 ára afmælis Höfrungs.

Fleiri viðburðir af þessu tagi verða á afmælisárinu og er ætlunin að bjóða þjóðinni um borð í tækjakost stofnunarinnar vítt og breitt um landið á afmælisárinu.