Fréttayfirlit: nóvember 2013 (Síða 2)

Enginn eldur eða reykur sjáanlegur um borð í Fernöndu

Í dag hefur áhöfn varðskipsins Þórs og slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kannað aðstæður um borð í flutningaskipinu Fernöndu og virðist enginn eldur eða reykur vera lengur til staðar.  Skipið er að kólna og mældist hiti í skipinu hvergi hærri en 40 gráður með hitamyndavél slökkviliðsins. Ákveðið hefur verið að varðskipið Þór haldi með Fernöndu inn fyrir Garðskaga og leiti vars fyrir ríkjandi vindum.

Aðstæður kannaðar um borð í Fernöndu

Fyrir skömmu lauk öðrum samráðsfundi aðila sem hafa komið að mati og ákvörðunum varðandi framvindu mála vegna eldsvoðans um borð í flutningaskipinu Fernanda.   Að sögn áhafnar varðskipsins Þórs og slökkviliðsmanna eru ágætar aðstæður á staðnum og munu nú slökkviliðsmenn fara um borð í skipið til nákvæmari skoðunar.

Nú er nýlokið samráðsfundi vegna Fernanda

Nú er nýlokið samráðsfundi þeirra aðila sem hafa komið að mati og ákvörðunum varðandi framvindu mála vegna eldsvoðans um borð í flutningaskipinu Fernanda en þeir eru fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Umhverfisstofnunar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Hafrannsóknarstofnunar, Samgöngustofu, hafnaryfirvalda Faxaflóahafna og Hafnarfjarðarhafnar, lögreglu, eigenda skipsins og tryggingafélags. 

Þór vinnur áfram að kælingu Fernöndu

Varðskipið Þór er enn með flutningaskipið Fernöndu í togi 66 sjómílur vestur af Garðsskaga. Í gær var sjó sprautað á skrokk flutningaskipsins til að kæla hann og er talið að eldurinn sé slokknaður. Enginn reykur stígur frá skipinu en mikil gufa myndast þegar vatni er sprautað á það sem bendir til að skipið sé mjög heitt. Hvassviðri er spáð þegar líður á daginn og er því áætlað að draga skipið inn fyrir Garðskaga í Faxaflóa.

Varðskipið Þór enn við slökkvistörf - staðan svipuð og fyrr í dag

Varðskipið Þór er enn við slökkvistörf vestur af Faxaflóa, vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernanda. Staðan er svipuð og fyrr í dag.

Aðgerðum við Fernanda haldið áfram - leitast við að draga úr hættu á mengun

Varðskipið Þór er enn með flutningaskipið Fernanda á sömu slóðum og í gærkvöldi þ.e vestur af Faxaflóa en telst það svæði samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun fjarri hrygningarstofnum og veiðisvæðum. 

Flutningaskipið Fernanda dregið vestur af Faxaflóa

Varðskipið Þór hefur nú dregið flutningaskipið Fernanda vestur af Faxaflóa, á svæði þar sem skipið telst fjarri hrygningarstofnum og veiðisvæðum samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar.  Þá er allnokkuð dýpi á þessum slóðum.  Staðsetningin er í samræmi við ákvörðun sem tekin var á samráðsfundi Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar nú fyrr í dag.

Flugvélin Sif komin til landsins eftir gæslu- og eftirlitsverkefni fyrir Frontex

SIF_MG_1474

Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar kom til landsins síðdegis eftir að hafa verið við gæslu- og eftirlit fyrir Landamæraeftirlitsstofnun Evrópusambandsins, Frontex frá byrjun október. Flugvélin hefur skilað miklum árangri á tímabilinu.

Þór gengur vel að draga flutningaskipið Fernanda

Varðskipið Þór siglir nú í norðvestur með flutningaskipið Fernanda í togi og gengur dráttur skipsins vel. Siglt er á u.þ.b. sex mílna hraða en eins og komið hefur fram er markmiðið að komast á svæði þar sem vindátt er hagstæð miðað við hugsanlegt rek á skipinu. Einnig er horft til þess að lágmarka áhættu á að skipið sökkvi með hliðsjón af umhverfisvá en fyrst og síðast að tryggja öryggi allra þeirra aðila sem koma að aðgerðinni.

Reynt að lágmarka hættu á umhverfisslysi

Rétt í þessu var að ljúka samráðsfundi Landhelgisgæslu, Hafrannsóknarstofnunar, Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu þar sem ákveðin voru næstu skref vegna elds um borð í flutningaskipinu Fernanda. 

Þór kominn með Fernanda frá landi - næstu skref metin

Varðskipið Þór er nú með flutningaskipið Fernanda í togi eftir að eldur blossaði aftur upp í skipinu nokkru eftir komuna til Hafnarfjarðar. Þór er á góðri stefnu og siglir 10 mílur til að halda reyk sem mest frá landi og varðskipinu.

Varðskipið Þór undirbýr að draga Fernanda aftur frá bryggju - eldur blossaði aftur upp í skipinu

Varðskipið Þór kom með flutningaskipið Fernanda til hafnar í morgun og hafði ferðin gengið vel.  Skömmu eftir komuna blossaði eldur aftur upp um borð í Fernanda og var um mikinn eld og reyk að ræða.

Varðskipið Þór kominn með Fernanda til hafnar

Varðskipið Þór kom með flutningaskipið Fernanda til Hafnarfjarðar um klukkan níu í morgun. Landhelgisgæslan, lögregla og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinna saman að aðgerðum í Hafnarfjarðarhöfn. Varðskipið sprautar á skipið utanvert en fjölmennt lið slökkviliðs vinnur að slökkvistörfum frá landi en milli þrjátíu og fjörutíu manns taka þátt í slökkvistarfinu.

Síða 2 af 2