45 ár frá komu Týs til Reykjavíkur

Varðskipið Týr ber aldurinn vel og hefur leikið stórt hlutverk í sögu Landhelgisgæslunnar.

  • Tyr

24.3.2020 Kl: 9:50

Í dag eru 45 ár frá því að varðskipið Týr kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur. Skipið ber aldurinn vel og hefur leikið stórt hlutverk í sögu Landhelgisgæslunnar og þjóðarinnar undanfarna áratugi.

Löng hefð er fyrir því að áhöfnin blási til afmælisveislu um borð og hefur sá siður verið viðhafður að sá skipverji sem lengstan starfsaldur hefur um borð skeri tertuna. Að þessu sinni kom það í hlut Hauks D. Grímssonar, smyrjara.

Rannveig Hreinsdóttir, bryti, útbjó glæsilegar veitingar fyrir kaffisamsætið og skreytti veisluborðið af sinni alkunnu snilld.

Tyr-Haukur-SmyrjariHaukur D. Grímsson, smyrjari, sker tertuna í tilefni þess að 45 ár eru frá því að Týr kom til Reykjavíkur.Tyr-afmaeliRannveig Hreinsdóttir útbjó glæsilegt veisluborð.Tyr-tvitugur20 ár frá komu Týs. Þór Steingrímson, yfirvélstjóri á Tý sker tertuna.Tyr-1-arsÁrsafmæli Týs. 

Fyrir fimm árum tók Halldór B. Nellett, skipherra hjá Landhelgisgælunni, saman yfirlit um sögu skipsins og í vikunni uppfærði Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður, þessa fróðlegu samantekt sem finna má hér.

Thorvaldur-eg-Oli-Valur-GudmundurLífið um borð í Tý á upphafsárunum. Úr myndasafni Jóns Páls Ásgeirssonar.

21.-april-1975-21. apríl 1975.

Upphafið

Samið var um smíði varðskipsins Týs í desember 1973. Pétur Sigurðsson þáverandi forstjóri Landhelgisgæslunnar skrifaði undir samninginn fyrir hönd Landhelgissjóðs/Ríkissjóðs.

Kjölur af skipinu var lagður í júlí 1974.

Skipinu var svo hleypt af stokkunum 10. október 1974 og var þá gefið nafn. Það var Dóra Guðbjartsdóttir eiginkona Ólafs Jóhannessonar þáverandi dómsmálaráðherra sem gaf skipinu nafnið “TÝR”.

Skipið fór í reynslusiglingu 8. mars 1975 (undir dönskum fána). Varðskipið Týr var formlega afhent Landhelgisgæslu Íslands 14. mars 1975. Pétur Sigurðsson þáverandi forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti skipinu fyrir hönd Landhelgisgæslu Íslands og var þá íslenski fáninn dreginn að hún.

Þann 23. mars Reyndu skipverjar á Tý að draga strandaðan breskan togara (D P Finn á flot. Ekki reyndist unnt að ganga nægjanlega vel frá dráttartaugum um borð í þeim strandaða, þannig að þær slitnuðu er á reyndi. Varðskipinu Ægi tókst svo síðar að draga það á flot.

Skipið kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 24. mars 1975, kl. 16:37 og lagðist að Ingólfsgarði. Skipið var þá fullkomnasta skip íslands og jafnframt það dýrasta en það kostaði um 1 miljarð króna komið til landsins.

Varðskipið fór sína fyrstu ferð til björgunar- og landhelgisgæslustarfa frá Reykjavík þann 29. mars 1975, undir stjórn Guðmundar Kjærnested skipherra.

Þorskastríðið 1975-1976


Varðskipið Týr kom mikið við sögu í 200 sjómílna þorskastríðinu og klippti á togvíra fjölda breskra togara. Alvarlegasti atburðurinn varð þegar breska freigátan Falmouth sigldi tvívegis á Tý og laskaði hann verulega. Skipið fór nær alveg á hliðina en rétti sig við aftur. Ekkert manntjón varð en litlu mátti muna að tveir skipverjar Týs færu fyrir borð við þessa fólskulegu árás freigátunnar.

Árekstar í 200 sml þorskastríði :

HMS Andrometa F-57 28/12 1975
HMS Juno F-52 6/2 1976 Sigldi á Tý tvisvar
HMS Seylla F-71 24/2 1976
HMS Juno F-52 12/3 1976 Sigldi á Tý tvisvar
HMS Diomede F-16 13/3 1976
HMS Tartar F-133 og HMS Salisbory F-32 ¼ 1976 Sigldu á Tý í sjö skipti
HMS Nard F-34 24/4 1976
HMS Falmmouth F-113 6/5 1976 Sigldi á Tý þrisvar

Eða 18 ásiglingar herskipa

Týr klippti á togvíra eftirtalina breskra togara í 200 sml Þorskastríði :

25/11 1975 St. Giles
21/01 1976 Boston Blenheim
02/02 1976 Ross Khartoum
06/02 1976 Ross Khartoum, Kingstone Pearl, Ross Altair.
24/04 1976 Ross Canaveral
06/05 1976 Carlisle

Fyrsta Útvegspilið var afhent um borð í Tý 1977

Skutull

Dagana 1.- 4. nóvember 1991 vann varðskipið við björgun skuttogarans SKUTULS en þess má geta að skuttogarinn er fyrrverandi varðskip Landhelgisgæslunnar og hét þá Baldur. Kom hann mikið við sögu í 200 mílna þorskastríðinu 1975-76.

Veður var afleitt meðan á aðgerðum stóð, NA-stórviðri en skipið fékk veiðarfærin í skrúfuna á Halamiðum undan Vestfjörðum. Togarinn Júlíus Geirmundsson reyndi fyrst að draga skipið en dráttartaugin margslitnaði og var þá Týr kallaður til.

Týr kom dráttartaug á milli skipanna en það fór á sömu leið, hún slitnaði enda þá komið ofsaveður og stórsjór og lágu skipin undir áföllum. SKUTULL fékk á sig mikinn brotsjó sem lagði skipið á hliðina um 70-80°. Þegar SKUTULL rétti sig við aftur eftir áfallið kom í ljós að veiðarfærin höfðu losnað að hluta úr skrúfunni og skipið varð ferðafært. Gat það siglt hæga ferð og sigldu bæði skipin inn á Dýrafjörð þar sem kafarar varðskipsins hreinsuðu það sem eftir var úr skrúfu skipsins.

Vaðlavík

Í janúar 1994 dró varðskipið Týr togbátinn Bergvíká flot í Vaðlavík en skipið hafði strandað þar í desember árið áður. Við þær aðgerðir fórst dráttarbáturinn Goðinn við björgunaraðgerðir en áður hafði Týr reynt að draga Bergvíkina við slæmar veðuraðstæður á flot án árangurs. Þyrlur varnarliðsins unnu mikið björgunarafrek þegar þeim tókst að bjarga áhöfn Goðans en einn áhafnarmeðlimur lét lífið.

Henrik B

Dagana 29. desember 1994 til 1. janúar 1995 bjargaði varðskipið Týr hollenska flutningaskipinu Henrik B.
Það sem er merkilegt við þessa björgun er að flutningaskipið sigldi mannlaust í margar klukkustundir undan suðurströnd landsins eftir að þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SIF tókst að bjarga allri áhöfninni eftir að skipið fékk á sig mikinn brotsjó. Meðal þeirra sem bjargað var af skipinu var smábarn sem var um borð. Eftir að skipið fékk á sig brotsjóinn taldi áhöfnin að skipið væri að sökkva. Skipverjum Týs tókst með harðfylgi að komast um borð um 100 sjómílur suðsuðaustur af Vestmannaeyjum og sigla skipinu til Reykjavíkur.

Súðavík

Í janúar 1995 féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar í Súðavík. Varðskipið Týr fór til Súðavíkur frá Reykjavík með fjölda björgunarsveitarmanna, lækna, slökkviliðsmanna, leitarhunda ofl. Skipið hreppti hið versta veður á leiðinni. Einnig fór Týr í sömu ferð til aðstoðar flutningaskipinu Múlafossi sem var í vélavandræðum í aftakaveðri norður af Hornbjargi og fylgdi honum til hafnar.

Dagfari

DAGFARI GK 70, um 300 tonna loðnuskip sem gert er út frá Sandgerði, fékk á sig brot um kl. 8 þann 21. Feb. 1996 í haugasjó og tólf vindstigum út af Stafnesi. Gluggar í brú brotnuðu og siglingatæki urðu óvirk en báturinn gekk fyrir eigin vélarafli. Einn skipverji slasaðist lítillega, fékk hnykk á háls og bak þegar brotið reið yfir. Óttast var um tíma að nót skipsins, sem fór að hluta til í sjóinn, flæktist í skrúfunni, en skipverjar náðu henni um borð aftur.

Talstöðvar- og símasambandslaust var að mestu við skipið í rúmlega þrjár klukkustundir. Óttast var um afdrif skipsins í fyrstu en um níuleytið barst stutt tilkynning í gegnum farsíma frá Dagfara að hann hefði fengið á sig brot undan Sandvík og öll siglingatæki væru óvirk en aðalvél og stýri í lagi. Varðskipið Týr, sem var statt skammt undan Garðskaga, hélt af stað til aðstoðar skipverjum

EFCA fiskveiðieftirlit

Varðskipið Týr var við fiskveiðieftirlit á Miðjarðarhafi, Síldarsmugunni og á Nýfundnalandsmiðum fyrir Fiskveiðieftirlitsstofnun Evrópusambandsins árin 2011 og 2012.

Frontex

Árið 2013 fór varðskipið Týr í landamæraeftirlit milli Spánar og Marokkó á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópusambandsins. Núna undanfarið eða síðan 1. desember 2014 hefur varðskipið verið við eftirlit og björgunarstörf á vegum Frontex á svæðinu suður og austur af Ítalíu. Í störfum sínum fyrir Frontex hafa áhafnir varðskipsins tekið þátt í björgun þúsunda flóttamanna, oft við skelfilegar aðstæður í vondum veðrum og hafa þessi afrek vakið heimsathygli. Skipið fór frá Íslandi 20. nóvember 2014.
Lauslega áætlaður fjöldi flóttamanna sem skipið kom að björgun á frá 2013-2015 er 3.800 manns.

Svalbarði

Sumarið 2014 var Týr leigður til Sýslumannsins á Svalbarða í almenn björgunar-og eftirlitsstörf á svæðinu.

Tölfræði yfir ýmsar bjarganir

Á síðastliðnum 45 árum hefur Týr dregið alls 102 skip til hafnar eða í landvar á Íslandi og tvö erlendis eða alls 104 skip. Síðasta stóra björgun Týs var þegar flutningaskipið EZADEEN var dregið til hafnar á Ítalíu í byrjun janúar 2015 með alls 360 flóttamenn en skipið var stjórnlaust djúpt austur af Ítalíu. Lengsta dráttarverkefni Týs til þessa var í maí-júní 2012 þegar dráttarbáturinn Hebron Sea var dreginn frá Pictou á Nova Scotia í Kanada til Grena í Danmörku eða alls 2881 sjómílur.

Í alls 105 skipti hafa veiðarfæri verið skorin úr skrúfum fiskiskipa af köfurum varðskipsins og 6 sinnum verið kafað við skip þar sem botnskemmdir og fleira hafa verið kannaðar eftir strönd skipa.

Alls hafa 8 skip verið dregin úr strandi.

Unnið hefur verið að slökkvistörfum í alls 4 skipum og sjó dælt úr lekum skipum alls 4 sinnum af ýmsum ástæðum.

Varðskipið Týr hefur sinnt fjölda annarra atvika s.s. leit að skipum og mönnum, sjúkraflutningum, slæðingu á veiðarfærum, aðstoð við eyðingu tundurdufla, aðstoð við bilanir á vélbúnaði og svo mætti lengi telja. Þá hefur margvíslegri vinnu verið sinnt fyrir innlenda samstarfsaðila svo sem á ljósduflum og öldumælisduflum og viðhaldi ljósvita á annesjum og skerjum umhverfis landið.

Þrátt fyrir árin 45 er varðskipið Týr enn í góðu standi. Skipið hefur ávallt fengið gott viðhald og hefur í þrígang farið til Póllands á árunum 1997-2006 þar sem gerðar voru ýmsar endurbætur á skipinu.

Þrátt fyrir að Týr hafi upphaflega verið smíðaður til eftirlits- og björgunarstarfa á Íslandsmiðum hefur skipið farið víða eða allt frá botni Miðjarðarhafs til Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum og norður fyrir Svalbarða í Norðurhöfum.

Ekki tókst mér að finna sigldar sjóm., fyrir þessi ár en aðalvélarnar sem eru tvær eru keyrðar rétt rúmlega 50.500 klst hvor um sig eða um 101.000 klst samanlagt sem telst ekki mikið á 45 árum. Rétt er að hafa það í huga að í langflestum tilfellum er verið að keyra á annarri vélinni með hina í fjöðrun og læsta á meðan.

Í fjárlögum ársins 2020 hefur verið veitt heimild til að selja Ægir og Týr og undirbúningur hafinn við að leggja drög að öðru skipi í þeirra stað.

Afmælisbarnið er að heiman á afmælisdaginn.

Öllum gögnum frá fyrstu 15 – 20 árum skipsins hefur verið skilað á þjóðskjalasafnið og því hafði ég ekki mikið við þetta að bæta en reyndi þó eftir fremsta megni að uppfæra þessa samantekt til dagsins í dag ásamt lítils háttar viðbótum frá 200 sml þorskastríðinu.

Uppfært : Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður v/s Týr 23. mars 2020