Áfengismælar í varðskipin

Starfsfólk LHG sækir námskeið í meðferð áfengismæla og fíkniefnaprófa

Fjölmargir úr starfsliði Landhelgisgæslunnar hafa að undanförnu setið námskeið í meðferð áfengismæla og fíkniefnaprófa. Slíkir mælar og próf eru nú um borð í skipum Landhelgisgæslunnar enda fer stofnunin með löggæslu á hafinu. Þá er líka gert ráð fyrir að áhafnir loftfara LHG hafi aðgang að þessum búnaði. 

Eitt slíkt námskeið var haldið í höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð í nýliðinni viku. Þátttakendur í því voru starfsfólk Landhelgisgæslunnar sem fer með lögregluvald við störf sín, til dæmis áhafnir á varðskipum og þyrlum, séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitin auk starfsfólks af lögfræðisviði og aðgerðasviði. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Árni Friðleifsson úr umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en það var haldið í gegnum Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar. 

Landhelgisgæslan hefur af og til afskipti af sjófarendum sem eru ekki allsgáðir við störf sín. Íslensk siglingalög eru skýr þegar kemur að neyslu áfengis og vímuefna. Í 238. grein þeirra segir að enginn megi „stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða, ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- og fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna [...] er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Brot gegn ákvæði þessu varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“ 

Í sömu grein er kveðið á um að „skipverja og/eða þeim sem stjórnar skipaferðum eða veitir öryggisþjónustu vegna skipaferða er skylt, að kröfu lögreglu eða Landhelgisgæslu Íslands, að gangast undir rannsókn á öndunar-, munnvatns- eða svitasýni, blóð- eða þvagrannsókn með þeim hætti sem lögregla ákveður þegar ástæða er til að ætla að viðkomandi hafi brotið gegn ákvæðum þessarar greinar. Honum er jafnframt skylt að hlíta kröfu sömu aðila um að láta flytja sig til læknis til rannsóknar, þar á meðal til blóð- og þvagrannsóknar, og að hlíta nauðsynlegri meðferð læknis.“  

Árni fær Svanhildi Sverrisdóttur mannauðsstjóra til að blása. Mæling leiddi í ljós að hún væri allsgáð í vinnunni eins og vera ber.