Áhöfnin á Baldri aðstoðar vélarvana skemmtibát á Breiðafirði

Baldur dró bátinn til Brjánslækjar og var kominn þangað aftur með skemmtibátinn tæpri klukkustund eftir að útkallið barst.

10. júní 2018 Kl: 11:05

Vélarvana skemmtibátur sem staddur var á Breiðafirði óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar laust eftir klukkan níu í morgun. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði sjómælingabátinn Baldur út en hann var staddur við Brjánslæk. Áhöfnin á Baldri brást hratt og örugglega við beiðninni og hélt þegar í stað til móts við skemmtibátinn. Skömmu síðar eða um 9:30 var áhöfn Baldurs kominn á staðinn og tók  fólkið um borð og dró bátinn til hafnar í blíðskaparveðri. Sex voru um borð í skemmtibátnum, þar af tvö börn, en ekkert amaði að fólkinu og engin hætta var á ferðum. Baldur dró bátinn til Brjánslækjar og var kominn þangað tæpri klukkustund eftir að útkallið barst.