Eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að kalla út áhöfnina á TF-EIR til að sækja manninn.
13.1.2020 Kl: 12:50
Skipstjóri frystitogara sem staddur
var 40 sjómílur austur af Norðfjarðarhorni hafði samband við stjórnstöð
Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð vegna slasaðs skipverja um borð.
Eftir samráð við þyrlulækni var ákveðið að kalla út áhöfnina á TF-EIR til að
sækja manninn. Um átta leytið í morgun var TF-EIR komin að skipinu og hífði
manninn um borð. Ákveðið var að fljúga með hann til Egilsstaða. Þar beið
sjúkraflugvél Mýflugs sem kom honum undir læknishendur í Reykjavík.