Áhöfnin á TF-GNÁ kemur endurvarpa á Straumnesfjalli í gang

Áhöfnin á TF-GNÁ, þyrlu Landhelgisgæslunnar fór í gær í verkefni á Straumnesfjalli norðan við Aðalvík. Slokknað hafði á endurvarpa sjálfvirka auðkenniskerfisins (AIS) sem er staðsettur á fjallinu en hann er mjög mikilvægur fyrir öryggi sjófarenda á svæðinu.

Varðskipið Þór var á svæðinu til að tryggja öryggi sjófarenda og miðla upplýsingum til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Varðskipið er útbúið sendi- og móttökutækjum sem gera varðskipinu kleyft að taka á móti upplýsingum frá skipum og bátum á takmörkuðu svæði í gegnum sjálfvirka auðkenniskerfið.

Skýjaslæðingur og svartaþoka var efst á fjallinu og skyggni mjög lítið sem krafðist útsjónarsemi og þrautseigju áhafnarinnar til að komast að endurvarpanum við þessar aðstæður. Áhöfnin komst að endurvarpanum til að bæta við eldsneyti og gangsetja ljósavél sem er notuð til að hlaða rafgeymana fyrir endurvarpann. Að lokum komst endurvarpinn aftur í gang og áhöfnin hélt heim á leið. Meðfylgjandi myndir voru teknar af áhöfn þyrlunnar og sýna þær hversu slæmt skyggni var á svæðinu.

 
Skýjaslæðingur var yfir fjallinu.
 
Verkefnið gekk vel hjá þyrluáhöfninni þrátt fyrir slæmt skyggni.