Annríki í stjórnstöð og mörg útköll á sjó

Slasaður sjómaður og strandveiðibátar í vanda.

  • TF-GRO-sjukrabill-Reykjavikurflugvollur-rampur

8.5.2024 Kl: 15:43

Töluvert annríki hefur verið í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í dag. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í morgun til að sækja sjómann sem slasaðist á hendi við störf sín um borð í fiskiskipi sem var á veiðum út af Vestfjörðum. TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan 8:30 og var komin að skipinu klukkustund síðar. Þá var skipið um 20 sjómílur vestur af Sauðanesi.

Veður var með besta móti og ölduhæð hagstæð. Áður en hífingar hófust hafði áhöfn þyrlunnar samband við skipið yfir Vestfjörðum þar sem upplýsingar voru veittar um hvernig staðið yrði að hífingum. Aðgerðin tókst eins og í sögu og einungis liðu átta mínútur frá því að hífingarnar hófust og þar til maðurinn var kominn um borð í þyrluna. Að því búnu var flogið með manninn til Reykjavíkur þar sem þyrlan lenti á ellefta tímanum og hann fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl frá Reykjavíkurflugvelli.

Á ellefta tímanum barst Landhelgisgæslunni neyðarkall frá strandveiðibát sem tók inn á sig sjó vestur af Barðanum. Sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum voru kallaðar út ásamt þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Vel gekk að dæla sjó úr bátnum sem fór í fylgd björgunarskips til Þingeyrar.

Þá voru björgunarsveitir einnig kallaðar út vegna strandveiðibáts sem sigldi á rekald og fékk í skrúfuna. Áhöfnin á björgunarskipinu Kobba Láka var kölluð og tók bátinn í tog til hafnar í Bolungarvík.

Image00006_1715183016348Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafa haft í nógu að snúast. 

Kobbi-LakaSjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa haft mikið að gera í dag. 

TF-GRO-sjukrabill-Reykjavikurflugvollur-rampurMaðurinn var fluttur með sjúkrabíl frá Reykjavíkurflugvelli.