Annríki við umferðareftirlit og sjúkraflug hjá þyrlu Landhelgisgæslunnar

Þyrla Landhelgisgæslunnar var í umferðareftirliti í dag með lögreglunni á Suðurlandi. Flogið var meðal annars með þjóðveginum austur að Bakka og til baka aftur. Þá var flogið upp Árnessýsluna og lent til að hraðamæla og kanna réttindi og ástand ökumanna. Hefur þyrla Landhelgisgæslunnar verið í umferðareftirliti með lögreglunni um helgina og hefur það almennt gengið vel.

Er þyrlan var enn við mælingar og eftirlit eða um klukkan 18.50 kom beiðni frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um að þyrlan færi að slysstað undir Ármannsfelli en þar hafði kona fallið af mótorhjóli. Hélt þyrlan þegar af stað og var fyrst á vettvang en hún lenti á slysstað rétt rúmlega sjö í kvöld. Var konunni komið fyrir á sjúkrabörum og hún flutt um borð í þyrluna. Flaug þyrlan með konuna til Reykjavíkur þar sem henni var komið undir læknishendur.