Athygli vakin á stækkandi straumi með nýju tungli

Stórstreymt á mánudaginn

  • Sjavarfallatoflur-mynd

20.1.2023 Kl: 13:53

Landhelgisgæslan vekur athygli á að nú er stækkandi straumur með nýju tungli á morgun, laugardag, og verður stórstreymt á mánudaginn. Sjávarfallaútreikningar gera ráð fyrir að flóðhæð á morgunflóðinu á mánudag verði 4,5 metrar í Reykjavík en áhlaðandi af völdum hafáttar og lægri loftþrýstings getur aukið við flóðhæðina. Veðurspár gera ráð fyrir suðvestlægri vindátt um helgina og ölduspár gera ráð fyrir nokkuð þungri suðvestan öldu á sunnudag sem mæða mun mest á ströndinni sunnan- og suðvestanlands.

Í ritinu Sjávarfallatöflur, sem Landhelgisgæslan gefur út á hverju ári, má finna sjávarfallaspár fyrir flestar hafnir landsins. Í ritinu eru birtir útreikningar á tíma og hæð flóðs og fjöru í fimm höfnum sem skilgreindar eru sem aðalhafnir fyrir útreikningana. Hafnir þessar eru Reykjavík, Ísafjörður, Siglufjörður, Djúpivogur og Þorlákshöfn. Í ritinu eru leiðréttingatöflur til að reikna út mun á tíma og flóðhæð annarra hafna út frá aðalhöfnum. Útreiknuð sjávarhæð miðast við sjávarstöðu yfir svokölluðu kortanúlli íslenskra sjókorta, sem er nærri sjávarhæð á meðalstórstraumsfjöru.

Sjavarfallatoflur-mynd