Bátur í vanda nærri Rifi
Leki kom að Sæljósi GK. Skipverjanum bjargað um borð í björgunarskipið Björg.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 13.05 neyðarkall frá netabátnum Sæljósi GK. Báturinn var staddur með einn mann um borð um tvær sjómílur norðvestur af Rifi þegar leki kom að honum. Saxhamar, annar bátur sem var í nágrenninu kom fljótlega á vettvang.
Þá var Björg, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi, kallað til, svo og þyrla Landhelgisgæslunnar. Fljótlega eftir að hún fór í loftið var aðstoð hennar afturkölluð. Skipverjinn komst heilu og höldnu yfir í Björg.
Í fyrstu var ráðgert að dæla sjó úr Sæljósi með dælum björgunarskipsins og koma þannig í veg fyrir að hann sykki en svo var horfið frá þeim áformum. Í staðinn tók Saxhamar bátinn í tog. Á leiðinni missti hann taugina en þá kom Björgin enn til aðstoðar, náði tauginni og dró Sæljós til hafnar á Rifi. Slökkvilið Snæfellsbæjar ætlaði nú seinni partinn að freista þess að dæla sjónum úr Sæljósi.