Benóný Ásgrímsson flugstjóri lýkur glæsilegum starfsferli eftir 50 ára farsælt starf

Benóný Ásgrímsson þyrluflugstjóri flaug sitt síðasta flug hjá Landhelgisgæslunni í gær og lauk þar með stórglæsilegum 50 ára ferli í starfi hjá Landhelgisgæslunni í þágu íslensku þjóðarinnar.

Núverandi og fyrrverandi samstarfsfélagar og fjölskylda Benónýs komu honum á óvart og tóku á móti honum á flugvelli Landhelgisgæslunnar með viðhöfn. Starfsmenn stóðu heiðursvörð og slökkvilið Reykjavíkurflugvallar myndaði heiðursboga yfir þyrluna er hún renndi í hlað. Þá fylgdu þyrla og flugvél Landhelgisgæslunnar Benóný er hann flaug til baka úr sínu síðasta verkefni á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Í þessu síðasta flugi Benónýs flaug Brynhildur Ásta Bjartmarz þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni og fósturdóttir Benónýs með honum en hún kom honum að óvörum með því að koma sérstaklega frá Ameríku til að fljúga þetta síðasta flug með kappanum.

Er Benóný steig út úr þyrlunni sást greinilega hversu hissa en hrærður hann var yfir móttökunum og það var ekki laust við að tár sæjumst á hvarmi samstarfsfélaga er kappinn gekk fram fyrir þyrluna og smellti kossi á nef hennar í kveðjuskyni.

 
Viðhafnarbogi var myndaður yfir þyrlunni er hún lenti.
 
Kappinn lentur með bros á vör. Í hurð þyrlunnar speglast heiðursvörðurinn sem beið hans við komuna.
Klappad-a-thyrlu 
Benóný þakkar þyrlunni samfylgdina.
 
Georg Kristinn Lárusson tók á móti Benóný er hann hafði gengið gegnum heiðursvörðinn.
 
Benóný heilsar Sindra Steingrímssyni flugrekstrarstjóra Landhelgisgæslunnar.

Í ræðu sinni til Benónýs sagði Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar meðal annars: „Benóný er löngu orðinn goðsögn í lifanda lífi, þjóðarhetja og þjóðareign. Landhelgisgæslan þakkar þér Benóný fyrir óeigingjarnt starf, endalausa baráttu og viljastyrk við að halda okkur á floti og lifandi, móta starfsemina og tryggja öryggi í öll þessi ár; vera kletturinn, fyrirmyndin og brautryðjandinn“

Benóný fékk svo afhenta sérstaka heiðursgjöf sem er hluti af merkri sögu Landhelgisgæslunnar og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar en það eru hinar margfrægu togvíraklippur, unnar úr silfri eftir gullsmiðinn Einar Esrason. Sagði Georg þær ekki hvað síst tákna útsjónarsemi, baráttuþrek og stefnufestu sem einkennt hafa feril Benónýs hjá Landhelgisgæslunni.

 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar færir Benóný þakkir og heiðursgjöf.
 
Benóný flytur þakkarræðu.

Benóný á að baki hreint stórkostlegan feril sem þyrluflugstjóri og er að öðrum ólöstuðum reynslumesti flugstjóri landsins í leitar- og björgunarflugi og þótt víðar væri leitað. Starfsferill hans spannar farsæl 50 ár, þar af 38 ár í fluginu. Benóný er einnig skipstjórnarmenntaður og sigldi sem stýrimaður á varðskipum Landhelgisgæslunnar í allmörg ár. Hann hefur því á ferlinum sinnt fjölda starfa í nánast öllum deildum Landhelgisgæslunnar, auk þess að hafa gegnt margvíslegum trúnaðar- og stjórnunarstörfum hjá Landhelgisgæslunni, meðal annars sem yfirflugstjóri og flugrekstrarstjóri. Á þessum tímamótum á Benóný að baki 35.000 flugtök og lendingar og flugtímarnir eru orðnir yfir 11.000.

 
Eiginkona Benónýs, Kristín Gunnarsdóttir smellir kossi á eiginmanninn.
 
Með barnabörnum, systur og eiginkonu.

Kappinn lauk ekki aðeins glæstum 50 ára ferli í gær, hann átti einnig 65 ára afmæli og samstarfsfélagar hans stóðust ekki mátið að koma honum enn frekar á óvart og slógu upp afmælis- og starfslokaveislu honum til heiðurs um kvöldið. Þar héldu fjölmargir núverandi og fyrrverandi starfsmenn ræður til að þakka honum samstarfið og hið margrómaða Gæsluband tróð upp, að sjálfsögðu með Benóný sjálfan fremstan í flokki...alveg óvænt.

 
Benóný mætir í óvænta veislu, orðlaus og yfir sig hissa.
 
Með læriföður, fyrrum samstarfsfélaga og góðvini, Þresti Sigtryggssyni fyrrum skipherra á varðskipum Landhelgisgæslunnar.

Myndir: Árni Sæberg ljósmyndari.