Bíldudalsskóli heimsækir varðskipið Tý

Varðskipið Týr hefur að undanförnu verið í löggæslu- og eftirlitsferð um miðin og kom meðal annars við í Bíldudalshöfn fyrir skemmstu. Áhöfnin á Tý notaði tækifærið og bauð öllum nemendum í 1. til 10. bekk Bíldudalsskóla í heimsókn um borð í Tý til að kynna sér starfsemina. Það voru alls 36 glaðbeittir gestir sem mættu um borð, nemendur og kennarar í blíðskaparveðri. Krakkarnir voru einstaklega áhugasamir og sýndi áhöfnin þeim öll helstu tæki um borð og þann búnað sem notaður er.

Krakkarnir skoðuðu til dæmis brunagalla áhafnarinnar og þann klæðnað sem notaður er við fallbyssu varðskipsins. Að sjálfsögðu bauð áhöfnin upp á djús og kex og að lokum var öllum boðið í skemmtisiglingu um fjörðinn og höfnina á léttbátum varðskipsins.

Þessar skemmtilegu myndir frá heimsókninni tók áhöfnin á Tý. Landhelgisgæslan þakkar krökkunum úr Bíldudalsskóla kærlega fyrir komuna.


Krakkarnir skelltu sér í siglingu um fjörðinn á léttbátum varðskipsins.

Haldið af stað í smá siglingu.

Skipherrann á Tý, Halldór B. Nellett sáttur eftir daginn og krakkarnir líka sem voru kvödd með Landhelgisgæslublöðrum.