Áhöfnin á TF-EIR bjargaði manni úr sjálfheldu á Hólmatindi
15.8.2020 Kl: 20:55
Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, bjargaði manni úr sjálfheldu á Hólmatindi við Eskifjörð laust eftir klukkan átta í kvöld. Björgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út vegna málsins. TF-EIR tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á sjöunda tímanum í kvöld og var komin á svæðið þar sem maðurinn var klukkan 19:53. Sex mínútum síðar var hann kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og var við góða heilsu. Flogið var með hann til Eskifjarðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug að því búnu aftur að Hólmatindi og sótti þangað björgunarsveitarfólk sem tók þátt í aðgerðum.
Maðurinn lenti í sjálfheldu á Hólmatindi.Staðurinn þar sem maðurinn fannst.
Sigurður Ásgeirsson, flugstjóri, að störfum.
Björgunarsveitarfólk sem tók þátt í aðgerðinni.