Fimm hífðir um borð í EIR í Fljótavík

Til að gæta fyllsta öryggis voru fimm farþegar hífðir um borð í TF-EIR eftir að leki kom að farþegabát.

  • Image0

16.3.2021 Kl: 21:03

 

Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, hífði fimm farþega farþegabáts frá borði í Fljótavík á áttunda tímanum í kvöld. Ákveðið var að hífa fólkið frá borði til að gæta fyllsta öryggis.


Áhöfnin á Gísla Jóns, björgunarskipi Landsbjargar, dregur farþegabátinn til hafnar. Áhöfnin á TF-EIR flutti jafnframt dælu um borð í farþegabátinn til að létta undir með dælunum sem fyrir voru.

 
Fyrr í dag fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu um að leki hefði komið að bátnum og að hann væri orðinn aflvana norður af Hornströndum. Þyrla Landhelgisgæslunnar og tvö björgunarskip Landsbjargar voru þegar í stað kölluð út auk þess sem bátar í grenndinni voru beðnir um að halda á staðinn.

 
Fiskibáturinn Otur II var fyrstur á vettvang og tók farþegabátinn í tog en alls voru sjö um borð í farþegabátnum.


Fimm hífðir í fjótavík