Fiskibátur strandaði í utanverðum Súgandafirði
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í morgun vegna fiskibáts sem strandaði við utanverðan Súgandafjörð.
28.10.2024 Kl: 09:17
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í morgun vegna fiskibáts sem strandaði við utanverðan Súgandafjörð.
Skipstjóri fiskibátsins tilkynnti varðstjórum í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um málið laust eftir klukkan sex í morgun. Tveir voru um borð í bátnum og aðstæður á strandstað voru ágætar, hægur vindur og gott sjólag.
Mennirnir komust í land með aðstoð björgunarsveitarfólks og voru svo hífðir um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti þá á Suðureyri. Síðar í dag verður hugað að björgun bátsins með aðstoð björgunarskipa Landsbjargar á kvöldflóði.
Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og Rannsóknarnefndar samgönguslysa.