Fjögur útköll þyrlusveitar í dag

Annasamur dagur að baki

  • Thyrla-vid-Sjukrahusid-a-Akureyri

16.9.2022 Kl: 21:13

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist fjögur útköll í dag, bæði á sjó og á landi. Í morgun var óskað eftir aðstoð sveitarinnar vegna veikinda um borð í fiskiskipi sem var statt 80 sjómílur norður af Grímsey. Vegna fjarlægðar frá landi voru tvær þyrlur sendar norður, önnur annaðist útkallið sjálft á meðan hin var til taks í Grímsey.

 
Þegar búið var að flytja skipverjann á Sjúkrahúsið á Akureyri voru áhafnir þyrlanna tveggja aftur kallaðar út, nú vegna alvarlegs umferðarslyss á Mýrum. Á leiðinni á vettvang umferðarslyssins bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tvær beiðnir um aðkomu þyrlusveitarinnar til viðbótar. Annars vegar vegna göngumanns í sjálfheldu fyrir ofan Hofsós og hins vegar vegna slasaðs smala á Barðaströnd, fyrir ofan Mórudal.


Tekin var ákvörðun um að einn yrði fluttur með þyrlu frá vettvangi umferðarslyssins og var hinni þyrlunni stefnt norður á Hofsós þar sem göngumaðurinn var hífður um borð. Hann var orðinn kaldur og hrakinn og var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Á Akureyri var þyrlan fyllt af eldsneyti og hélt að því búnu rakleiðis á Barðaströnd þar sem smalinn var sóttur og komið undir læknishendur í Reykjavík.

 
Nokkuð óvanalegt er að þyrlusveitin annist jafn mörg útköll og raunin var í dag en þó kemur það stöku sinnum fyrir.

 
Á degi sem þessum er afar mikið álag á varðstjórum Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem þurfa að samræma aðgerðir í góðri samvinnu við frábæra samstarfsaðila okkar hjá Neyðarlínu, björgunarsveitum, lögreglu og slökkviliði.Á meðfylgjandi myndum má sjá svipmyndir frá deginum.