Flugvélin TF-SIF komin heim

TF-SIF hefur sinnt verkefnum fyrir Frontex síðan um miðjan janúar

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, lenti á Reykjavíkurflugvelli nú í hádeginu eftir liðlega tveggja mánaða fjarveru frá Íslandi. Þar með er lokið að sinni verkefnum flugvélarinnar fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex.


Áhöfn TF-SIF á flugvellinum í Catania. Frá vinstri: Hólmar Logi Sigurðsson flugmaður, Magnús Örn Einarsson stýrimaður, Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri, Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður, Sigurjón Sigurgeirsson flugvirki.  

Flugvélin hélt utan um miðjan janúar. Framan af hafði hún bækistöðvar í borginni Hania á grísku eynni Krít en svo færði hún sig um set til Catania á Sikiley. Verkefni vélarinnar fólust í reglubundnu eftirlitsflugi fyrir Frontex víðs vegar um Miðjarðarhafið, meðal annars á hafsvæðum sem bátar og skip sem flytja flótta- og farandfólk til álfunnar sigla um.


Friðrik Höskuldsson á útkikkinu.

Izabella Cooper, talsmaður Frontex, segir að framlag Landhelgisgæslunnar á undanförnum árum hafi skipt miklu máli. „Ísland hefur lagt sitt af mörkum til starfsemi Frontex allt frá upphafsdögum stofnunarinnar. Íslenska flugvélin og varðskipið hafa á þeim tíma sinnt eftirliti við strendur Spánar, Ítalíu og Grikklands í mörg ár og tryggt þannig landamæri Evrópu og bjargað þúsundum mannslífa.“


TF-SIF á flugvellinum í Catania. Í baksýn grillir í eldfjallið Etnu. 

Fyrri hluta aprílmánaðar gengst TF-SIF undir hefðbundið viðhald en á meðan sækir áhöfnin sækir reglubundna þjálfun. Að því búnu taka svo við margvísleg verkefni, fyrst og fremst þó löggæsla og eftirlit á Íslandsmiðum, meðal annars í tengslum við árlegar úthafskarfaveiðar. Fastlega er búist við því að TF-SIF fari svo aftur til Miðjarðarhafs á síðari hluta ársins til að sinna frekari verkefnum fyrir Frontex.