Halldór Nellett lýkur glæsilegum hálfar aldar ferli hjá Landhelgisgæslunni
Halldór var heiðraður af samstarfsfélögum við komuna til Reykjavíkur
9.12.2020 Kl: 15:04
Halldór Nellett, skipherra á varðskipinu Þór, lauk tæplega
hálfrar aldar ferli hjá Landhelgisgæslunni þegar varðskipið kom til hafnar í
Reykjavík í morgun.
Halldór var heiðraður af samstarfsfélögum við komuna til Reykjavíkur en áhafnir beggja varðskipa, Þórs og Týs, stóðu heiðursvörð þegar skipið sigldi til hafnar. Að auki fylgdi TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, Halldóri síðasta spölinn til Reykjavíkur sem og hafnsögubátur Faxaflóahafna. Þá stóðu nokkrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar einnig heiðursvörð á bryggjunni þegar Halldór steig frá borði og þremur púðurskotum var skotið úr fallbyssu honum til heiðurs.
Georg Kr. Lárusson tók á móti honum við komuna og þakkaði honum fyrir óeigingjarn starf í þágu lands og þjóðar.
Ferill Halldórs hjá Landhelgisgæslu Íslands er bæði farsæll og viðburðaríkur. Hann einkennist af fórnfýsi, útsjónarsemi og ástríðu fyrir björgunarstörfum. Halldór var einungis 16 ára þegar hann var ráðinn messagutti um borð í varðskipinu Ægi árið 1972. Sex árum síðar útskrifaðist hann úr farmannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík og lauk varðskipadeild sama skóla í kjölfarið. Halldór hefur gegn störfum sem skipstjórnarmaður á varðskipum og loftförum Landhelgisgæslu Íslands í fjölda ára. Hann hefur siglt sem skipherra frá árinu 1992 og hefur verið fastráðinn sem slíkur frá árinu 1996. Hann tók þátt í tveimur þorskastríðum og var jafnframt í áhöfn varðskipsins Ægis sem kallað var út þegar gos hófst á Heimaey 23. janúar 1973. Hann hefur gegnt fjölda starfa innan Landhelgisgæslunnar, meðal annars sem yfirmaður aðgerða og var staðgengill forstjóra í kringum aldamótin. Þá tók hann virkan þátt í uppbyggingu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á níunda áratug síðustu aldar og starfaði bæði sem spilmaður og sigmaður um borð í björgunarþyrlunni TF-SIF.
Halldór reyndi jafnframt fyrir sér í millilandasiglingum en kom fljótt aftur til Landhelgisgæslunnar þar sem hann hefur lagt lóð sitt á vogarskálarnar í leitar- og björgunarmálum í þágu íslensku þjóðarinnar.
Þá var Jón Páll Ásgeirsson, stýrimaður, einnig heiðraður við sama tilefni en hann lauk störfum hjá Landhelgisgæslunni fyrr á árinu.
Halldór kemur í land.
Ferill Halldórs hjá Landhelgisgæslunni er glæsilegur.Þá var Jón Páll Ásgeirsson, stýrimaður, einnig heiðraður við sama tilefni en hann lauk störfum hjá Landhelgisgæslunni fyrr á árinu.
Georg Kr. Lárusson tók á móti Halldóri við komuna til Reykjavíkur.
Halldór kemur til hafnar á Þór í síðasta sinn.