Heiðraður af samstarfsfélögum
Varðskipið Þór er nú við öryggisgæslu og eftirlit á Íslandsmiðum og stóð vaktina yfir páskahelgina. Ferð varðskipsins nú er um margt sérstök því skipherra ferðarinnar, Sigurður Steinar Ketilsson er í sinni síðustu ferð eftir 50 ára farsælan feril hjá Landhelgisgæslunni. Einnig er yfirvélstjóri varðskipsins, Egill H. Bjarnason að láta af störfum eftir 7 ára starf og hefja töku eftirlauna nú í apríl líkt og skipherrann.
Varðskipsáhafnir Landhelgisgæslunnar ákváðu af þessu tilefni að koma okkar þaulreynda skipherra á óvart sem og yfirvélstjóranum og á páskadag voru þeir heiðraðir af samstarfsfélögum. Brytinn um borð reiddi fram páskadagsmáltíð sem hæfir skipherra eftir 50 ára starf á fjölbreyttum vettvangi Landhelgisgæslunnar. Með kaffinu var boðið upp á konfekt, brauðtertu og væna súkkulaðiköku og kvöldmaturinn samanstóð af grilluðu páskalambi ásamt sósu og salati. Ekki spillti fyrir ánægju skipherrans og áhafnarinnar að fá ís með bláberjum og jarðarberjum í eftirrétt í tilefni dagsins.
Mikil leynd hafði hvílt yfir því sem framundan var og því kom það skipherranum og yfirvélstjóranum á óvart er þeir voru kallaðir upp til að veita viðtöku einstaklega fallegri og veglegri gjöf sem samstarfsfélagar þeirra höfðu slegið saman í.
![]() |
Skipherrann, Sigurður Steinar Ketilsson var kampakátur eftir heiðrun félaganna. |
![]() |
Brytinn um borð í varðskipinu Þór, Bergvin Gíslason skellti í eina væna súkkulaðiköku og glæsilega brauðtertu í tilefni dagsins. |
![]() |
Þeir Egill H. Bjarnason yfirvélstjóri til vinstri og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra til hægri, að vonum hissa en glaðir með óvæntu uppákomuna. |
![]() |
Falleg gjöf handa þeim köppum frá áhöfnum varðskipa Landhelgisgæslunnar. |