Jeppafólk staðsett með GSM-leitarbúnaði

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar studdist við GSM-leitarbúnað við Langjökul í vikunni.

  • TF-LIF-LIF

26.3.2019 Kl: 15:41

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til leitar að átta manns í þremur jeppabifreiðum við Langjökul aðfaranótt mánudags.

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 2:03 og var stefnan tekin upp að Langjökli í 6000 feta hæð. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar studdist við GSM-leitarbúnað í fluginu.

Eftir tæplega hálftíma flug kom þyrlan inn á leitarsvæðið þar sem líklegast var að hópinn væri að finna. Fljótlega náðist samband við hópinn með GSM-leitarkerfinu og hann staðsettur með því. Sá sem rætt var við sagði hópinn vera staddan við Slunkaríki, þar væru allir bílarnir og allir væru heilir á húfi.

Hópurinn óskaði eftir að einhver kæmi til móts við hann og myndi leiða til byggða. Björgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar komu í kjölfarið að jeppafólkinu. Þyrlan var lent aftur í Reykjavík laust eftir klukkan þrjú.

GSM leitarkerfi LHG er búnaður um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar sem getur miðað út staðsetningu GSM farsíma með nokkurri nákvæmni. Aðeins þarf að vera kveikt á símanum. Ekki er nauðsynlegt að hann sé í símasambandi til að hægt sé að miða hann út. Kerfið gerir áhöfn þyrlunnar einnig kleift að eiga samskipti við hinn týnda, hvort sem er með SMS skeytasendingum eða símtali. Það getur skipt sköpum til að ákveða hvernig björgun er háttað gerist hennar þörf. Þá getur kerfið einnig nýst sem farsímakerfi á milli aðila á jörðu niðri þegar annað samband er ekki í boði.