Landhelgisgæslan bar sigurorð af breska flughernum

Landhelgisgæslan hefndi tapsins fyrir 75 árum með dramatískum sigri í knattspyrnuleik liðanna.

  • 614-OFFICIAL-20191206-055-198

9.12.2019 Kl: 10:09

Landhelgisgæslan bar sigurorð af konunglega breska flughernum í knattspyrnuleik um helgina. Vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 3-3. Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur jafnaði metin með síðustu spyrnu venjulegs leiktíma og markvörðurinn Stefán Logi Magnússon tryggði sigurinn í vítaspyrnukeppni. 75 ár voru frá síðasta leik liðanna en þá fór breski flugherinn með sigur af hólmi.

Lið Landhelgisgæslunnar var skipað starfsmönnum af flugrekstrarsviði, varnarmálasviði, aðgerðasviði, siglingasviði og sprengjusveit. Þá fór Landhelgisgæslan mikinn á leikmannamarkaðnum fyrir leikinn og var með öflug leynivopn í sínum röðum. Knattspyrnukempurnar Stefán Logi Magnússon, Atli Jóhannsson, Björn Pálsson, Tryggvi Sveinn Bjarnason og Ásgeir Þór Ingólfsson léku allir með liði Landhelgisgæslunnar. 

Leikurinn var hnífjafn og spennandi. Staðan eftir venjulegan leiktíma var eins á áður segir 3-3. Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur, jafnaði metin fyrir Landhelgisgæsluna með síðustu spyrnu leiksins en skömmu áður hafði Jóhann Eyfeld, sigmaður, minnkað muninn í 3-2. Ásgeir Þór Ingólfsson skoraði fyrsta mark Landhelgisgæslunnar.

Þá þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem Stefán Logi Magnússon, markvörður, reyndist hetjan. Stefán varði eina spyrnu Bretanna og skoraði svo úr vítinu sem tryggði Landhelgisgæslunni sigurinn. 

Marvin Ingólfsson, fyrirliði Landhelgisgæslunnar, tók við NATO-bikarnum úr hendi Ellis Williams, yfirmanns bresku flugsveitarinnar, í leikslok.

Breski flugherinn hefur undanfarnar vikur sinnt loftrýmisgæslu hér á landi. Þessi bráðskemmtilegi leikur markaði lok hennar.

Leikurinn var sýndur beint á KeflavíkTV

Ljósmyndir: RAF

614-OFFICIAL-20191206-055-147Liðin og dómarar fyrir leik.614-OFFICIAL-20191206-055-278Frosti Gunnarsson verst sóknarmanni breska flughersins.614-OFFICIAL-20191206-055-246Konunglegi breski flugherinn komst í 3-1 en Landhelgisgæslan jafnaði metin á síðustu stundu.614-OFFICIAL-20191206-055-154Úrslit leiksins réðust í vítaspyrnukeppni. Atli Jóhannsson skorar örugglega úr víti.614-OFFICIAL-20191206-055-161Jóhann Eyfeld, sigmaður, á vítapunktinum.614-OFFICIAL-20191206-055-160Stefán Logi ver víti frá liðsmanni breska flughersins.614-OFFICIAL-20191206-055-196Marvin Ingólfsson tekur við NATO-bikarnum.614-OFFICIAL-20191206-055-197Marvin og liðsfélagar hans fagna sigrinum.614-OFFICIAL-20191206-055-172Stefán Logi skoraði úr síðasta víti Landhelgisgæslunnar og tryggði sigurinn. 614-OFFICIAL-20191206-055-177Sigurinn var dramatískur. 614-OFFICIAL-20191206-055-205Marvin Ingólfsson, Jóhann Eyfeld og lið Landhelgisgæslunnar. 614-OFFICIAL-20191206-055-228Einar Hansen, varamarkvörður, gerði gæfumuninn á varamannabekknum og hélt uppi einstaklega góðri stemningu.614-OFFICIAL-20191206-055-198Georg Kr. Lárusson, Ellis Williams og lið Landhelgisgæslunnar. RAF-Football-Champions-1944Sigurlið Breta árið 1944.