Landhelgisgæslan fagnar 90 ára afmælinu með samfélagsverkefni

Þakkar þannig þjóðinni fyrir traustið í gegnum árin.

Landhelgisgæsla Íslands fagnar 90 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni ákvað Landhelgisgæslan að efna til samfélagsverkefnis í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða með einhverjum hætti og um leið þakka íslensku þjóðinni traustið í gegnum árin. Landhelgisgæslan leitaði samstarfs við Landspítala og úr varð að næstu vikur mun Landhelgisgæslan bjóða einstaklingum sem glíma við erfiða sjúkdóma að kynnast Landhelgisgæslunni og um leið upplifa eitthvað öðruvísi og ævintýralegt.

Í vikunni bauð Landhelgisgæslan fólki sem hefur nýtt sér geðsvið Landspítala í siglingu með varðskipinu Þór og nokkrum ungum langveikum börnum var boðið ásamt fjölskyldum sínum í þyrluflug. Fleiri gestir koma svo í heimsókn á næstu vikum og hlökkum við hjá Landhelgisgæslunni mikið til að taka á móti öllum þessum góðu gestum.

Það var frábær hópur áhugasamra gesta sem mætti um borð í varðskipið Þór í vikunni og þakkar Landhelgisgæslan þeim kærlega fyrir komuna og einnig Landspítala fyrir að taka þátt í verkefninu með okkur. 

Hér má sjá myndband Landspítala frá heimsókninni.

http://www.landspitali.is/um-landspitala/sjonvarp/nanar/?itemid=224cd6e2-9793-11e6-8070-005056be0005&title=Landhelgisg%u00e6slan+bau%u00f0+upp+%u00e1+siglingu&category=c7f62b9d-878b-11e5-9f3c-005056be0005