Líf og fjör um borð í Tý

Bingó og bjölluhringingar um borð í varðskipinu

Varðskipið Týr er í reglubundinni eftirlitsferð um Íslandsmið. Skipverjarnir láta sér alls ekki leiðast um borð því fyrir utan hefðbundin skyldustörf hafa þeir  staðið fyrir ýmsum skemmtilegum viðburðum að undanförnu. 

Á sunnudagskvöldið ríkti rafmögnuð spenna um borð í varðskipinu þegar áhöfnin efndi til bingós. Spilað var á öllum borðum og deildum með nútíma tækni og mættu allir prúðbúnir til leiks. Haraldur Örn Haraldsson háseti var bingóstjóri, hann var með gamanmál á reiðum höndum til að létta mönnum lundina og stýrði öllu af stökum myndarbrag. 


Rannveig Hreinsdóttir bryti og Sólveig Hjaltadóttir háseti höfðu veg og vanda að skipulagningu þessa viðburðar og útveguðu vinninga. Þetta var æfing fyrir jólabingóið sem spilað verður í næstu ferð skipsins. Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður tók þessar skemmtilegu myndir af bingóinu í Tý.


Í nýliðinni viku var svo efnt til táknræns viðburðar um borð í Tý. Þá hringdi Rannveig bryti skipsbjöllunni klukkan eitt síðdegis í tilefni af árlegum degi gegn einelti og kynferðisofbeldi.

https://youtu.be/YfRUTx4rZY4