María Júlía dregin til Akureyrar

Varðskipið Þór dró Maríu Júlíu til hafnar á Akureyri.

  • Thorgeir-Baldursson-Maria-Julia

3.4.2023 Kl: 10:53

Varðskipið Þór kom með hina sögufrægu Maríu Júlíu til hafnar á Akureyri undir lok marsmánaðar. María Júlía þjónaði Landhelgisgæslunni um árabil og tók meðal annars þátt í fyrsta þorskastríðinu. Báturinn var fluttur frá Ísafirði til Akureyrar þar sem hann fer í slipp. Ferðin til Akureyrar gekk ágætlega en veðuraðstæður voru krefjandi nær alla leið.

Í samantekt Sigurlaugs Ingólfssonar um skipakost Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum segir að tilkoma þess að Landhelgisgæslan eignaðist Maríu Júlíu var að Vestfirðingar höfðu safnað um langt árabil fyrir björgunarskipi sem gæti þjónað við Vestfirði. Árið 1950 rættist sá draumur.

Stærsta gjöfin til Björgunarskútusjóðs Vestfirðinga kom frá hjónunum Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundi Guðmundssyni frá Ísafirði, en þau gáfu aleigu sína til sjóðsins. Það var því vel við hæfi að skipið var nefnt María Júlía.

Báturinn var smíðaður í Danmörku, var úr eik, 137,4 rúmlestir, 27,5 m á lengd og 6,37 m á breidd. Auk hefðbundinna gæslustarfa var María Júlía sérhæfð til fiskveiðirannsókna, með trollvindu og öðrum viðeigandi búnaði, og til björgunar.

Skipið gekk ekki hratt enda aðeins búið 425 hestafla díselvél. Í stefni þess var 47mm fallbyssa. María Júlía var seld árið 1969 og var nýtt við fiskveiðar lengi og hefur verið við bryggju á Ísafirði síðustu ár.

MJ-SaevarMaría Júlía og varðskipið Þór. 

Maria-JuliaMaría Júlía tók þátt í fyrsta þorskastríðinu og var í þjónustu Landhelgisgæslunnar til ársins 1969.