Mikill viðbúnaður hjá Landhelgisgæslunni vegna togara sem datt út úr ferilvöktun

Mikill viðbúnaður var hjá Landhelgisgæslunni fyrr í morgun er togari datt út úr ferilvöktun djúpt norður af landinu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hóf þá þegar frekari eftirgrennslan en tilraunir til þess að ná sambandi við togarann í gegnum millibylgju og gervihnattasíma báru engan árangur. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði þegar eftir því að nærstödd skip, sem voru í um 40 sjómílna fjarlægð, reyndu einnig að ná sambandi við togarann en þau náðu ekki heldur neinu sambandi.

Því kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar sem og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Siglufirði. Þá var varðskipinu Tý, sem statt var á Vestfjörðum gert viðvart og beðið um að halda á staðinn. Eins voru nærstödd skip beðin um að gera sig tilbúin til að halda í átt að togaranum.

Um klukkan 11:40 tókst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að ná sambandi við togarann og reyndist allt vera í lagi um borð þrátt fyrir að ekki hafi tekist að ná sambandi fyrr. Var þá allur viðbúnaður afturkallaður.