Nýjar útgáfur af tveimur sjókortum
Hafnarkort af Akureyri og yfirsiglingakort af hafsvæðinu suðvestur af landinu.
Í lok janúar 2017 komu út nýjar útgáfur af tveimur sjókortum. Þetta voru hafnarkortið af Akureyri og yfirsiglingakortið Dyrhólaey-Snæfellsnes, nr. 31.
Breyting á hafnarmannvirkum og dýpkun eru algeng ástæða nýrrar útgáfu hafnarkorta. Akureyri er þar engin undantekning. Breytingar frá síðustu útgáfu kortsins eru til dæmis lenging Oddeyrarbryggju um hundrað metra og breyting á smábátaaðstöðu í Hofsbót.
Innri hluti Eyjafjarðar var mældur með fjölgeislamæli á liðnu ári. Nær allt hafsvæðið sem kortið nær yfir hefur nú verið endurmælt. Eldri dýptarmælingum hefur verið skipt út fyrir nýjar.
Myndir: Samsett loftmynd og botnmynd og sama svæði á sjókorti. Flak suður af Oddeyrarbryggju kemur vel fram á botnmyndinni (merkt Wk á sjókortinu).
Undir lok árs var gerður samningur við Loftmyndir ehf.um aðgang að loftmyndagrunni fyrirtækisins. Aðgangur að nýjum loftmyndum mun nýtast mjög vel við endurskoðun og viðhald á sjókortum, sérstaklega hafnarkortum.
Kort 31 – mælingar Baldurs, Þórs og Hafró
Yfirsiglingakort nr. 31 sem nær austan frá Dyrhólaey vestur og norður að Svörtuloftum á Snæfellsnesi var uppfært með dýptarmælingum sem gerðar hafa verið síðan kortið var síðast uppfært árið 2008. Þetta eru bæði dýptarmælingar Sjómælinga Íslands og dýptarmælingar Hafrannsóknastofnunar. Þessu til viðbótar var kort 31 samræmt nýjum útgáfum sjókortanna í 1:100.000, sem eru innan marka kortsins og komið hafa út á undanförnum árum.
Myndir: Nýjar fjölgeislamælingar í korti 31, græn svæði frá Hafrannsóknastofnun, appelsínugul svæði mælingar sjómælingabátsins Baldurs og varðskipsins Þórs.
Sjómælingar sumarið 2016.
Um miðjan maí í fyrra var byrjað á mælingum í Borgarfirði en mælt var dýpi í ljósgeirum innsiglingarvitanna á Þjófaklettum og Rauðanesi vegna endurskoðunar á sjókorti fyrir Borgarfjörð. Utarlega í Borgarfirði fannst áður óþekkt grunn. Grynnsti punktur er 5,9 m dýpi. Tilkynnt hefur verið um grunnið í Tilkynningum til sjófarenda.
Frá Borgarfirði var haldið til Vestfjarða þar sem áhersla var lögð á að ljúka sjómælingum í nýtt sjókort af Vestfjörðum. Sjókortið hefur verið lengi vinnslu en það kort mun ná frá Bjargtöngum að Ísafjarðardjúpi í mælikvarðanum 1:100.000. Það mun væntanlega koma út síðar á árinu. Auk þessara mælinga voru gerðar mælingar í höfnunum á Patreksfirði, Ísafirði og í Bolungarvík. Þá var lokið við að mæla Skutulsfjörð, en hluti af honum var mældur sumarið 2014. Frá Vestfjörðum var haldið til Eyjafjarðar þar sem fjörðurinn var mældur frá Laufásgrunni inn í fjarðarbotn. Um var að ræða samstarfsverkefni sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar og Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR.
Mynd af mælingasvæðum á Vestfjörðum og mælingarnar í Eyjafirði
Að þessum mælingum loknum var haldið suður fyrir Reykjanes og mælt með ströndinni frá Reykjanestá austur undir Krísuvíkurberg. Að lokum var haldið inn í Faxaflóa þar sem áherslan var lögð á sjómælingar í Garðsjó, á Stakksfirði og undan Vatnsleysuströnd auk þess sem höfnin í Helguvík var mæld.
Fjölbreytt verkefni Baldurs
Meginverkefni sjómælingabátsins Baldurs eru, eins og nafnið gefur til kynna, sjómælingar en í sumar sem leið eins og reyndar oft áður þá sinnti hann einnig ýmsum öðrum verkefnum, þ.á.m. löggæslu og eftirliti.
Baldur tók einnig þátt í aðgerðum við að ná upp flaki Jóns Hákons BA út af Aðalvík í júní. Byrjað var á því í maí að staðsetja flakið og legu þess nákvæmlega með fjölgeislamælingum. Það var gert til að auðvelda varðskipinu Þór að stilla sig af þegar það kæmi á staðinn. Þegar aðgerðir hófust var neðansjávarmyndavél send niður frá Baldri til að kanna ástand flaksins og að auki var mælir Baldurs notaður til að finna leið í gegnum grýttan botninn þegar Þór hóf að draga flakið inn að mynni Jökulfjarða.
Mynd: Guðmundur Birkir Agnarsson
Sigldar voru yfir þrjú þúsund sjómílur við mælingar sumarið 2016 og safnaðist því mikið magn af dýpisgögnum. Í haust og vetur hafa sjómælingamenn unnið við úrvinnslu gagnanna. Slík vinna tekur langan tíma. Þá tekur við vinna kortagerðarfólks Landhelgisgæslunnar við að búa til ný sjókort eða endurbæta eldri útgáfur korta með nýjum upplýsingum.