Magnaðar myndir frá þyrluæfingu dagsins

Áhöfnin á TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar fór í æfingu í dag en æfingar eru einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar þar sem þyrluáhafnirnar reyna af fremsta megni að þjálfa alla þá þætti sem mögulega geta komið upp í raunverulegum aðstæðum. Í dag ákvað áhöfnin að æfa björgun úr öldubrimi við Stóru-Sandvík en aðstæður þar eru svipaðar eins og á stöðum þar sem fólk hefur verið hrifsað úr fjöruborði, líkt og gerst hefur í Skarðsfjöru og þar sem skip hafa strandað.

Viggó M. Sigurðsson sigmaður seig niður úr þyrlunni og spilmaðurinn, Hrannar Sigurðsson var við stjórnvöl spilsins meðan flugstjórinn, Sigurður Heiðar Wiium og flugmaðurinn, Jóhannes Jóhannesson tryggðu að þyrlan héldi stöðu sinni, en gríðarleg vinna fer í að lesa sjólag sem og að halda þyrlunni á þeim stað þar sem verið er að hífa. Er Viggó sigmaður var kominn að yfirborði öldubrimsins náði eitt öldubrotið bókstaflega að gleypa hann. Náðu áhafnarmeðlimir þessum ótrúlegu myndum sem sýna Viggó er hann hverfur í öldurótinu. Allt fór vel enda miklir fagmenn á ferð en þessar myndir sýna að þetta er vægast sagt ekki starf fyrir hvern sem er.

 
Hér hefur Viggó sigið niður og er kominn að yfirborðinu.
 
Hér hefur öldurótið bókstaflega gleypt Viggó og aðeins sést í línuna.
 
Og hér sést aftur í sigmanninn eftir að hann hefur fengið yfir sig væna gusu.